Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kemur vel til greina að opna á ferðir milli Norðurlanda

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RUV
Ekkert formlegt samtal er hafið milli íslenskra stjórnvalda og nágrannaríkjanna um opnun landamæra og afléttingu ferðatakmarkana nú þegar kórónuveirufaraldurinn er í rénun. Utanríkisráðherra segir þó vel koma til greina af hans hálfu að opna landamæri milli Norðurlandanna.

Þó að ekki hafi verið rætt um málið með formlegum hætti hafa utanríkisráðherrar Norðurlandanna verið í almennu samtali um stöðu mála. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hafa ráðherrarnir rætt óformlega að opnun landamæra þeirra á milli gæti verið ákjósanlegur kostur sem fyrsta skref í afléttingu ferðatakmarkana.

„Ég hef talað fyrir opnum landamærum milli ríkjanna og kemur þetta vel til greina af minni hálfu. Það er hins vegar ljóst að það þarf að taka tillit til margra ólíkra þátta við slíka ákvarðanatöku og ekki má tefla þeim árangri sem hefur náðst í tvísýnu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, í skriflegu svari til fréttastofu. 

Tímarammi fyrir afléttingu ferðatakmarkana liggi þó ekki fyrir og óljóst sé á þessari stundu hvað sé raunhæft í þeim efnum.