Hótelgestir leyfðir svo lengi sem þeir hafa fjóra fætur

30.04.2020 - 10:22
Mynd: AP / AP
Á síðustu vikum hafa flest hótel landsins skellt í lás enda afar fáir erlendir ferðamenn á landinu. Erfitt er að spá fyrir um komu ferðamanna í sumar en þó hefur að minnsta kosti eitt hótel á Suðurnesjum ákveðið að opna á ný um mánaðamótin en einu leyfilegu gestirnir þar eru fjórfætlingar.

Hjónin Daníel Þorgeirsson og Kristín Einarsdóttir, reka Hunda-og kattahótel Suðurnesja en þau lokuðu því eftir páska. Nú ætla þau að opna á ný og eru bjartsýn á að gestirnir streymi að. Þau segja eftirspurnina vera til staðar og ákváðu einmitt að opna hótelið fyrir tæpum tveimur árum vegna þess hve mikil eftirspurn var af þessari þjónustu. „Konan mín var að vinna á dýralækningastofu Suðurnesja, var búin að vinna þar í svolítin tíma og var alltaf að fá fyrirspurnir hvort það væri einhver svona staður fyrir dýrin. Þetta hefur alltaf blundað í henni. Við ákváðum bara að slá til,“ segir Daníel. 

Viðtökurnar hafa verið góðar frá því að hótelið var opnað á sínum tíma. Daníel segir að eftirspurnin sé sérstaklega mikil í kringum jól, áramót og sumarmánuðina. „Svo kemur rólegur tími inn á milli en húsið aldrei tómt, fyrr en núna.“

Hann segist vera bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir að allt stefni í að lítið verði um utanlandsferðir Íslendinga í sumar. Margir ferðast innanlands og hvort sem dvalið er á tjaldstæðum eða sumarbústöðum má fólk ekki alltaf hafa dýrin með sér og þá taki þau þeim opnum örmum. 

Daníel hefur nóg að gera að sinna gestum hótelsins þegar allt er fullt enda full dagskrá hjá hundunum. „Þeir þurfa að gera sínar þarfir og leika sér. Þannig að þeir leika sér úti. Við erum með stórt útisvæði, fjögur hólf sem eru einhverjir 1800 fermetrar og þar fá þeir að leika sér góðan part úr degi.“ Hótelið tekur við bæði hundum og köttum en tegundunum er þó haldið aðskildum. 

Rætt var við Daníel Þorgeirsson í Morgunþætti Rásar 1 og 2 í morgun. 

 

 

 

 

huldag's picture
Hulda G. Geirsdóttir
dagskrárgerðarmaður
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi