Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Höfnuðu því að fresta launahækkunum bæjarfulltrúa

Mynd með færslu
Frá myndun meirihluta í Hafnarfirði. Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hafnaði á bæjarstjórnarfundi í gær tillögu frá fulltrúum minnihlutans um að breyta þóknun til kjörinna fulltrúa í Hafnarfirði þannig að fyrirhugaðar hækkanir á þingfararkaupi nái ekki til þeirra. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu þess efnis þegar rætt var um aðgerðaráætlun bæjarins vegna COVID-19. Lagt var til að viðmiðunarfjárhæð til bæjarfulltrúa verði fest í núverandi krónutölu og taki framvegis breytingum í samræmi við meðaltal reglulegra launa ríkisstarfsmanna. Laun verði í fyrsta lagi hækkuð árið 2021 því eðlilegt væri að kjörnir fulltrúar leggi sitt af mörkum til þess að lækka rekstrarkostnað bæjarins.

Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks höfnuðu tillögunni og höfnuðu því að vísa henni til forsætisnefndar. Í bókun meirihlutans var bent á að bæjarstjórn samþykkti árið 2017 að taka ákvörðun um laun bæjarfulltrúa úr höndum bæjarstjórnar, eins og áður hafði verið, og tækju mið af þingfararkaupi. Í bókuninni segir að fulltrúar Samfylkingarinnar hafi slegið nýjan tón með tillögunni.

„Í stað þess að hverfa aftur til handvirkra launatilfæringa fyrri tíma horfum við fram á veginn og leggjum áherslu á vinnu að þeim verkefnum og tækifærum sem bætt geta hag og velferð heimila og fyrirtækja í Hafnarfirði,“ segir í bókun meirihlutans.

Fulltrúar Samfylkingarinnar lýstu yfir vonbrigðum með meirihlutann og bentu á að stoðsvið bæjarins hafi lagt mikla vinnu í að rýna hvaða aðhaldsaðgerða væri hægt að grípa til svo bregðast mætti við auknum útgjöldum vegna faraldursins.

„Í því ljósi er eðlilegt að kjörnir fulltrúar leggi sitt af mörkum og taki ekki við launahækkunum á meðan það ástand varir,“ segir í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar.