Fékk tugi þúsunda afmæliskveðja á aldarafmælinu

30.04.2020 - 19:39
Mynd: EPA-EFE / HANDOUT
Elísabet Englandsdottning, forsætisráðherra Breta og söngvarar konunglegu óperunnar voru meðal þeirra sem heiðruðu Tom Moore sem er hundrað ára í dag. Moore hefur undanfarið safnað hátt í sex milljörðum króna fyrir breska heilbrigðiskerfið.

Elísabet Englandsdottning fagnaði 94 ára afmæli sínu á dögunum, en það má færa rök fyrir því að Bretar séu enn uppteknari af afmælisbarni dagsins. Hann heitir Tom Moore og er 100 ára í dag. 

„Tom kafteinn, það er nákvæmlega það sem þú ert, ljós í lífi okkar allra svo fyrir hönd þjóðarinnar, hafðu þökk fyrir og njóttu aldarafmælisins,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands meðal annars í ávarpi til Moore í dag.

Það fá ekki allir Bretar afmæliskveðju frá forsætisráðherranum, og afmæliskort frá Elísabetu drottningu. 

Þú þarft, lesandi góður, ekki að hafa áhyggjur þótt þú komir Tom Moore ekki fyrir þig, hann var ekkert mörgum kunnugur fyrir nokkrum vikum. Ekki fyrr en hann ákvað að leggjast í fjáröflun fyrir heilbrigðiskerfi Bretlands. Það gerði hann með því að safna áheitum og ganga hundrað hringi í garðinum hjá sér. Viðtökurnar voru þvílíkar að hann hélt áfram og hefur nú safnað á sjötta milljarð íslenskra króna. 

„Það er einstaklega ánægjulegt hve miklu fé við höfum safnað fyrir svo gott málefni. Því eins og mál standa nú er málefni enn brýnt, fólk vinnur dag og nótt fyrir allt vesalings veika fólkið,“ segir afmælisbarnið Tom Moore. 

Fyrrum hermaðurinn Moore er orðinn þvílík hvunndagshetja á tímum COVID-19 að póstþjónusta Bretlands hefur vart undan að taka á móti tugum þúsunda árnaðaróska sem Moore berast í pósti frá öllum heimshornum. 

Moore var sömuleiðis gerður að heiðursofursta í herdeild sinni í tilefni dagsins og tvær Spitfire orrustuflugvélar úr seinna stríði flugu heiðursflug honum til heiðurs. 

Afmælissöngurinn var svo ekki sunginn og spilaður af neinum viðvaningum, heldur tónlistarfólki frá hinni konunglegu óperu, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi