Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Enginn árangur á fundi Eflingar og sveitarfélaga

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Tveggja tíma löngum samningafundi í kjaradeilu Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk á niðurstöðu. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að ekkert hafi miðað áfram í viðræðunum í dag. Næsti fundur hefur verið boðaður á mánudag. Náist ekki samningar skellur á verkfall í fjórum sveitarfélögum: Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Ölfusi. Það myndi raska skólahaldi, starfsemi leikskóla og hugsanlega heimaþjónustu.

„Verkefnið okkar eins og við lítum á það er að finna útfærslu á því hvernig við getum gert sambærilegan kjarasamning og við höfum gert við Reykjavíkurborg og ríkið. Umræðan í dag á fundinum snerist svolítið um það. Við lögðum á borðið okkar tillögur að góðum, framkvæmanlegum útfærslum á því,“ segir Viðar.

Var því vel tekið?

„Það miðaði ekkert áfram í viðræðum í dag, því miður,“ segir Viðar.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að semjist ekki í kjaradeilunni gæti Alþingi þurft að setja lög á boðað verkfall.

„Það má vera að hana dreymi um slíka lausn á málinu. En ég held að það væri nú vænlegra einfaldlega að koma til móts við samningsaðilann og reyna að finna lausn með þeim hætti. Ég held nú líka að það hljóti að teljast ansi langsótt hugdetta að ætla að fara að setja lög á kjarabaráttu láglaunafólks á meðan hálaunahópar á síðustu vikum og mánuðum hafa verið að að gera ágætlega vel við sig og var þá ekki rætt um lagasetningu,“ segir Viðar. 

Grunnskólabörn hafa lýst áhyggjum af því að geta ekki sótt skóla í næstu viku komi til verkfalls. Þá hafa boðaðar verkfallsaðgerðir vakið óánægju hjá mörgum. Hefur þetta haft áhrif á kröfur Eflingar?

„Það hefur rignt yfir okkur stuðnings- og samstöðukveðjum sérstaklega síðasta sólarhringinn. Samstaðan meðal okkar félagsmanna er algjör. Þannig að nei, við förum inn í þessa baráttu með nokkuð sterka sannfæringu um að okkar málstaður sé góður,“ segir Viðar.