Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áhorfendur kjósa hvaða barnaleikrit verður sett upp

Mynd: RÚV / RÚV

Áhorfendur kjósa hvaða barnaleikrit verður sett upp

30.04.2020 - 13:13

Höfundar

Leikfélag Akureyrar býður nú upp á þá nýbreytni að áhorfendur geta valið hvaða barnasýning verður sett upp næsta vetur. Valið stendur á milli þriggja sýninga. Marta Nordal leikhússtjóri segir að þetta sé hluti af því að gefa áhorfendum hlutdeild í leikhúsinu.

Marta segir að þegar skipulagning á næsta vetri hófst hafi hún velt því fyrir sér hvernig væri hægt að ná fram vilja áhorfenda. Henni datt þá í hug að setja kosningu af stað. Einnig var ákveðið að leyfa áhorfendum að velja á milli þriggja sýninga sem allar eru vel þekktar. Það verk sem fær flest atkvæði verður svo sett upp í leikhúsinu. En verkin eru Mowgli, Benedikt búálfur og Fíasól. „Allt saman verk sem fólk þekkir. Vildum ekki hafa þetta þannig að þú þyrftir að lesa þér rosalega mikið til um verkið,“ segir Marta sem segist hafa fengið mikil viðbrögð við kosningunni. 

Aðspurð segist hún alveg eins eiga von á því að þetta sé eitthvað sem koma skal hjá leikfélaginu. „Það er nú ákveðin þróun í samfélaginu að valdefla fólk og valddreifing og leyfa fólki að hafa bein áhrif og við erum með miðla til þess, allt orðið miklu auðveldara. Mér finnst mjög líklegt að við gerum þetta aftur með einhverjum hætti. Þátttakan hefur verið mjög góð. Ég veit ekkert hvaða verkefni er að vinna, þannig að ég hlakka til að vita það. Skiptum okkur ekkert af þessu fyrr en við sjáum ofan í kassana.“

Ólíkt mörgum öðrum kosningum er allri smölun tekið fagnandi og segir Marta að því fleiri sem kjósa því betra. Kosningin stendur yfir fram á sunnudag og verða úrslitin tilkynnt í næstu viku. Kosningin fer fram á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar. 

Rætt var við Mörtu í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Leiklist

Marta Nordal tekur við Leikfélagi Akureyrar