Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

63 fá efnislega meðferð vegna COVID-19

30.04.2020 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Útlendingastofnun hefur afturkallað ákvarðanir um að synja 63 einstaklingum um efnislega meðferð hér á landi vegna COVID-19. Helmingur þessara umsækjenda eru börn.

Í 19 af þessum 63 tilfellum var búið að ákveða að hafna efnislegri meðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í 44 tilfellum hafði fólk fengið höfnun vegna þess að það hafði þegar hlotið vernd í öðru Evrópuríki. Umsóknir þessa fólks fá nú efnislega meðferð hjá Útlendingastofnun, sem annars hefði ekki verið raunin.

Mat á því hvort umsóknir fá efnislega meðferð hefur breyst vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi eru, að sögn Þórhildar Hagalín, upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunnar.

Þórhildur segir að til viðbótar við þessI 63 mál sé mikið af málum í vinnslu hjá stofnuninni. Þetta nýja mat verður tekið inn í þær ákvarðanir og notað til að ákveða hvaða málsmeðferð þau fá. 

COVID-19 hefur haft mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar, enda liggja samgöngur til og frá landinu nánast niðri. Þórhildur segir að umsóknir um hæli og alþjóðlega vernd í apríl séu í kringum tíu, þar af helmingur börn sem fæðst hafa hér á landi. Undir venjulegum kringumstæðum myndu þessar umsóknir skipta tugum.