
Viðbúið að 2.200 nemendur fái ekki að mæta í skóla
Alls eru 274 félagar í Eflingu með lausa kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þeir starfa flestir sem skólaliðar eða í heimaþjónustu í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Ölfusi. Skólaliðar sjá um stuðning í skólum og þrif. Þau hafa verið aukin til muna til að efla sóttvarnir.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, er ekki bjartsýn á að samningar náist fyrir þriðjudag þegar boðað hefur verið verkfall frá hádegi. Næsti samningafundur er á morgun. Inga Rún segir að sveitarfélögin hafi boðið 30% launahækkanir, eða níutíu þúsund krónur, á næstu tveimur og hálfu ári í samræmi við lífskjarasamning. Einnig að orlof verði lengt í þrjátíu daga og vinnuvika stytt. Inga Rún segir að Eflingarfólk vilji mun meiri launahækkun. Áttatíu og níu prósent Eflingarfólks í grunnskólum samþykkti verkfallsboðun.
Mest virðast áhrif verkfallsins verða í grunnskólum í þessum fjórum sveitarfélögum. Slakað verður á samkomubanni á mánudag og þá geta nemendur fengið hefðbundna kennslu í skólum þann dag en svo skellur verkfall á daginn eftir náist ekki samningar. Viðbúið er að frá og með miðvikudegi verði að fella niður alla kennslu innan veggja skólans í fjórum grunnskólum í Kópavogi: Álfhólsskóla, Kársnesskóla, Kópavogsskóla og Salaskóla. Í staðinn fá nemendur einungis fjarkennslu. Þessi skólar þurftu einnig að kenna eingöngu í fjarkennslu í tæpar tvær vikur í verkfalli Eflingar í síðasta mánuði. Verkfall nú hefði áhrif á rúmlega tvö þúsund og tvö hundruð börn.
„Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á minn skóla þar sem starfsmenn Eflingar sjá um öll þrif í skólanum og enginn annar kemur að þeim verkum. Þannig að þetta hefur mikil áhrif á okkur. Samkvæmt tilmælum frá sóttvarnalækni um að passa upp á sótthreinsun og passa upp á snertifleti og slíkt, þá sjáum við okkur ekki annað fært en að loka skólahúsnæði strax daginn eftir, miðvikudaginn 6. maí,“ segir Björg Baldursdóttur er skólastjóri Kársnesskóla.
Hvernig er hljóðið í nemendum og foreldrum?
„Þetta hefur mikil áhrif, sérstaklega gagnvart litlu börnunum og hópunum sem þurfa rútínu og þurfa bara að koma í skólann. Börnin þurfa þessi félagslegu samskipti. Þetta leggst mjög þungt á alla hópa. Ég veit líka að nemendur í eldri bekkjum hafa sent bréf til umboðsmanns barna þar sem þau lýsa áhyggjum af rétti sínum til náms og áhyggjum af því að fá ekki að koma í skólann. Það hafa allir áhyggjur af þessari stöðu. Hún er grafalvarleg,“ segir Björg.