Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Uppsagnir: Líta á sem leikhlé og varamannabekk

Mynd: Bogi Ágústsson / RÚV
Flugstjóri til 25 ára sem sagt var upp hjá Icelandair segir starfsfólkið sem missti vinnuna ennþá vera Icelandairfólk þótt það hafi tímabundið verið sett á varamannabekkinn. Flugfreyja í sömu sporum segist líta á uppsögnina sem leikhlé. 

Í hópi þeirra rúmlega 2000 starfsmanna Icelandair sem sagt var upp í gær er fólki með afar langa starfsreymslu. Margrét Sigmundsdóttir yfirflugfreyja hefur unnið hjá Icelandair í rúm 24 ár og hefur aldrei áður verið sagt upp en var ein tæplega 900 flugfreyja ssem sagt var upp. 

„Ég hef bara verið heppin. Það hafa margir lent í nokkrum uppsögnum áður,“ segir Margrét. 

Rúmlega 400 flugmönnum var sagt upp. Kári Kárason flugstjóri verður á árinu búinn að vinna hjá félaginu í 25 ár. 

„Og það er í fyrsta sinn á mínum ferli sem ég fæ uppsagnarbréf,“ segir Kári. 

Margrét segist telja að flestir taka uppsögnunum frekar vel af því þau hafi veitað að það hafi ekkert annað verið í stöðunni. 

Kári segist hafa fulla trú á því að hann klæði sig aftur í flugmannabúninginn síðar á þessu ári:

„Ég hef engar áhyggjur eiginlega. Eiginlega er ég hissa á því hvað ég hef litlar áhyggjur af þessu af því að í fyrsta lagi þá held ég að félagið sé vel í stakk búið til að spretta á fætur aftur og ég öðru lagi þá held ég að þessi kreppa verði mun styttri heldur en að menn óttast.“

Margrét segir um að gera að njóta sumarsins og segja megi að hún fái loksins sumarfríið sem hún hafði beðið um: 

„En auðvitað er þetta grafalvarleg staða og þetta kemur misilla við fólk. Og það eru kannsli ekki allir í sömu stöðu. Og mikið í þessum bransa er fólk, þetta eru heilu fjölskyldurnar.“

Kári segir að starfsfólk Icelandair hafi sýnt það og sannað að þegar á þurfi að halda sé það langstærsti auðurinn sem félagið búi yfir: 

„Og við erum ennþá Icelandair fólk þó svo að við séum tímabundið sett á varamannabekkinn.“

Margrét er sama sinnis: 

„Ég held að við lítum bara á þetta sem leikhlé. Og við komum bara sterk til baka.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Margrét Sigmundsdóttir.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Kári Kárason.