Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur að Alþingi gæti þurft að setja lög á verkfallið

29.04.2020 - 23:05
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að semjist ekki í kjaradeilu Eflingar við sveitarfélög gæti Alþingi þurft að setja lög á boðað verkfall.

Verkfall Eflingarstarfsmanna hjá nokkrum sveitarfélögum, aðallega Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Ölfusi, hefst að óbreyttu á þriðjudag. Það þýðir að ekki yrði hægt að þrífa í leik- og grunnskólum og einhverjum yrði líklega lokað.

„Mér finnst þetta náttúrulega óskiljanlegt og ég held að ég sé ekkert ein um þá skoðun finnast það forkastanlegt að lítill hópur starfsmanna sveitarfélaga skuli ætla að misnota aðstöðu sína með þessum hætti til þess að ná fram launahækkunum sem eru umfram það sem þegar hefur verið samið um við aðra starfsmenn sveitarfélaga,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Það væri slæmt ef loka þyrfti skólum og það sé skylda aðila að semja.

„En eins og ég hef sagt ítrekað í þessari deilu þá er sambandinu gjörsamlega fyrirmunað og ómögulegt að semja við Eflingu um annað en það sem aðrir hafa fengið í þessari samningalotu,“ segir Aldís.

„Ég lít á það sem skyldu samningsaðila auðvitað að setjast niður og fara yfir hver staðan í þjóðfélaginu er. Ef það gengur ekki þá verður auðvitað að grípa til einhverra annarra ráða og það þarf jafnvel að leita liðsinnis Alþingis til þess.“

Þýðir það að hún vilji lög á verkfallið?

„Það getur vel verið að það þurfi að grípa til einhverra aðgerða sem eru miður skemmtilegar,“ segir Aldís.