Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sektaður um tæpa milljón fyrir heimagistingu á Booking

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur lækkað sekt sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu úr 1,5 milljónum króna í 950 þúsund vegna heimagistingar sem auglýst var á bókunarvefnum Booking.com. Þar hafði fasteign verið leigð út sem tvö gistirými, annars vegar stúdíóíbúð í kjallara og íbúð á hæð, án leyfis.

Fram kemur í úrskurði ráðuneytisins að starfsmenn á vegum sýslumannsins hafi  farið í vettvangsrannsókn í október fyrir tveimur árum vegna gruns um að í fasteigninni væri óskráð heimagisting. 

Þar hafi þeir hitt fyrir erlendan ferðamenn sem sagðist hafa leigt eignina fyrir þrjá í fjórar nætur. Í framhaldinu tók sýslumaðurinn þá ákvörðun að leggja á 1,5 milljóna króna sekt fyrir brot á lögum um heimagistingu.

Fasteignaeigandinn kærði þá sekt til ráðuneytisins. Í kærunni sagðist hann hafa keypt fasteignina sumarið 2016,  sótt um leyfi til reksturs gististaðar en afgreiðsla mála hefði dregist hjá stjórnvöldum.  Hann taldi því ósanngjarnt að lögð væri  á hann sekt þar sem það hefði tafist að afgreiða umsókn hans hjá borgaryfirvöldum.

Ráðuneytið hafnaði þessu og bendir á í úrskurði sínum að frá því að lög um heimagistingu tóku gildi árið 2017 hafi 115 ferðamenn skrifað umsögn um gistinguna. Viðkomandi hafi tvívegis verið synjað um rekstrarleyfi, meðal annars á þeim forsendum að fasteignin uppfyllti ekki skilyrði byggingarreglugerðar. Þá hefði hann ítrekaður verið varaður við þeim viðurlögum að stunda gististarfsemi án tilskilins leyfis eða skráningar.

Ráðuneytið taldi hins vegar að ekki væri hægt að sekta fyrir hverja seld nótt eins og núgildandi lög kveða á um heldur yrði að horfa á starfsemina heildstætt.  Var því ákveðið að lækka sektina úr 1,5 milljónum króna í 950 þúsund krónur.