Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast að hjúkrunarfræðingar segi upp störfum

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Forstjóri Landspítalans hefur miklar áhyggjur af því að hjúkrunarfræðingar hafi fellt nýgerðan kjarasamning. Hann óttast uppsagnir og hvetur samninganefndir ríkis og hjúkrunarfræðinga til að semja. Ríkissáttasemjari hefur boðað til samningafundar klukkan tíu í fyrramálið. Hjúkrunarfræðingar eru fjórði hópur heilbrigðisstarfsfólks sem fellt hefur kjarasamning á síðustu vikum.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga felldi kjarasamning sem þeir gerðu við ríkið tíunda apríl. Niðurstaða atkvæðagreiðslu var kynnt í dag og var samningurinn felldur með 53,02 prósentum atkvæða. Hjúkrunarfræðingar eru því fjórði hópur heilbrigðisstarfsmanna sem fellir kjarasamning.

Félag íslenskra náttúrufræðinga felldi sinn samning við ríkið fyrir tæpum hálfum mánuði með 51,2 prósentum atkvæða. Ágreiningur er um hvort sá samningur hafi í raun verið felldur og lítur fjármálaráðuneytið svo á að hann standi. Formaður samninganefndar ríkisins segir að viðræður standi yfir við náttúrufræðinga um þetta. Skili þær ekki árangri leysir Félagsdómur úr ágreiningnum. Þá hafa geislafræðingar og lífeindafræðingar fellt sína samninga.  

Forstjóri Landspítalans segir það valda áhyggjum að hjúkrunarfræðingar hafi fellt samning.

„Já, miklum áhyggjum. Hjúkrunarfræðingar eru eitt helsta hryggjarstykkið í starfsemi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana almennt. Það sem við vitum af reynslunni er að allur órói og óvissa er mjög vond fyrir heilbrigðiskerfið,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Óttastu uppsagnir?

„Við óttumst alltaf uppsagnir því að uppsagnir, verkföll og annar óróleiki meðal okkar starfsfólks hefur alltaf truflandi áhrif,“ segir Páll.

Hann segir að felldur samningur hafi markað tímamót. 

„Mjög mikil breyting í honum að því er varðar vinnutíma og annað slíkt. Maður velti því fyrir sér hvort þær fordæmalausu aðstæður sem uppi eru hafi haft áhrif og truflað af því að það eru allir á dekki að vinna við það að takast á við faraldurinn. Aðalatriðið er auðvitað það að samningsaðilar setjist strax niður aftur af því að það verður að finna lausn á,“ segir Páll.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Báðir samningaðilar sýna ábyrgð

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur boðað til samningafundar klukkan tíu í fyrramálið. Hjúkrunarfræðingar töldu þegar þeir skrifuðu undir þennan samning að ekki væri unnt að komast lengra. Hvernig metur þú stöðuna? Er einhver samningsgrundvöllur fyrir eitthvað annað og meira?

„Þetta er flókið og erfitt verkefni en ég er sannfærður um það að ef við vinnum vel saman, stokkum spilin og förum í gegnum stöðuna í heild sinni, þá finnum við nýjar lausnir. Ég finn mjög sterkt ábyrgð hjá báðum samningsaðilum að vinna þétt saman og leysa úr þessu. Við verðum að minnka óvissuna fremur en að auka hana. Það er okkar ábyrgð,“ segir Aðalsteinn.