Leggja til stofnun félags um bættar samgöngur

29.04.2020 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um stofnun opinbers hlutafélags í eigu ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Félagið á að stuðla að „greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum“ samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á meðal annars að gera með uppbyggingu innviða, þar á meðal innviða almenningssamgangna í samstarfi við sveitarfélögin og Vegagerðina.

Frumvarpið var birt á vef Alþingis í gær. Það byggir á samkomulagi ríkisins við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í september í fyrra. Þar var kveðið á um skipulag og fjármögnun á samgönguinnviðum til fimmtán ára. 

Opinbera hlutafélagið á að halda utan um fjármögnun á byggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og hrinda þeirri uppbyggingu í framkvæmd. Það á að auki að fara með heildstæða áætlanagerð og áhættustýringu, hafa yfirumsjón með samræmingu verkefna og meta forgangsröðun. Félaginu er líka ætlað að fylgja því eftir að sveitarfélögin vinni að nauðsynlegum breytingum á skipulegasáætlunum. Félagið á líka að sjá um að innheimta svokölluð flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu ef ákveðið verður að innheimta slík gjöld.

Ríkið eignast 75 prósenta hlut í félaginu en sveitarfélögin samanlagt 25 prósent. Félagið á að yfirtaka land í eigu ríkisins og þróa það til uppbyggingar. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi