Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kona og kannski næsti leiðtogi Norður-Kóreu

29.04.2020 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Tæpar þrjár vikur eru síðan síðast spurðist til Kim Jongs un, æðsta leiðtoga Norður-Kóreu. Hann lét ekki einu sinni sjá sig í grafhýsi ættarinnar á sólarhátíðinni sem haldin er þann fimmtánda apríl ár hvert til að heiðra minningu Kim Il Sung, afa hans og forvera í embætti. Að núverandi leiðtogi hunsi þennan merkisdag er talið jafnast á við guðlast. Augu heimsins beinast nú að yngri systur hans Kim Yo Jong. Sumir telja víst að hún verði arftaki Jong un, sé hann látinn, aðrir telja það ómögulegt.

Í annað sinn á níu árum sem hvarf leiðtogans vekur athygli

Kim-veldið hefur stýrt Norður-Kóreu frá því Kóreuskaganum var skipt upp eftir seinni heimsstyrjöld. Kim Jong un er af þriðju kynslóð leiðtoga, hann tók við árið 2011, eftir að faðir hans Kim Jong-il lést. 

Kim Jong un var ungur og reynslulaus þegar hann tók við stjórnartaumunum í ríkinu, sem einungis er lýðræðisríki að nafninu til. Norður-Kórea er þekkt fyrir mannréttindabrot, áróður, leyndarhyggju, leiðtogadýrkun og að sveifla kjarnorkuvopnum, sem enginn veit almennilega hvers eru megnug, reglulega framan í heiminn. 

Kim Jong Un er talinn vera 36 ára gamall. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann hverfur tímabundið af sjónarsviðinu, árið 2014 sást hann ekki í mánuð, orðrómur fór á kreik um að hann hefði verið ráðinn af dögum í tilraun til valdaráns. Sú reyndist ekki raunin, hann birtist aftur, álíka þéttur á velli og áður, að vísu haltur og gekk við staf. 

In this undated photo provided on Wednesday, Oct. 16, 2019, by the North Korean government, North Korean leader Kim Jong Un rides a white horse to climb Mount Paektu, North Korea. Independent journalists were not given access to cover the event depicted in this image distributed by the North Korean government. The content of this image is as provided and cannot be independently verified. Korean language watermark on image as provided by source reads: "KCNA" which is the abbreviation for Korean Central News Agency. (Korean Central News Agency/Korea News Service via AP)
 Mynd: Norður-Kórea - AP
Hér er leiðtoginn heilsuhraustur við Paektu-fjall fyrir ári.

Suður-Kórea kveður niður orðróma

Þessa dagana fer mörgum sögum af því hvers vegna ekkert hefur spurst til leiðtogans. Sumir segja hann hafa verið myrtan, aðrir að hann sé í dái eftir hjartaaðgerð, enn aðrir að hann hafi ákveðið að einangra sig vegna kórónuveirufaraldursins sem hann vill þó ekki meina að sé farin að láta á sér kræla í Norður-Kóreu. Ráðamenn í Suður-Kóreu fullyrða að leiðtoginn sé við góða heilsu en enga staðfestingu á því er að finna í norður-kóreska ríkissjónvarpinu, þar sést hann ekki. 

Þögnin bendi til þess að eitthvað sé að

Ef Kim jong un er dáinn, sem er kannski ekkert sérstaklega líklegt, kemur það örugglega í hlut sjónvarpsþularins Ri Chun Hee að færa almenningi tíðindin, hún er komin á eftirlaun en er þó fengin til að flytja öll helstu stórtíðindi sem varða þjóðina, hér má heyra hana tjá landsmönnum dauða Kim Jongs Il, föður núverandi leiðtoga, með miklum tilfinningahita. 

Robert Kelly, stjórnmálafræðingur í Suður-Kóreu, telur þögn Kína og Norður-Kóreu benda til þess að Kim Jong Un glími við einhvers konar heilsubrest. Kelly segist ekki viss um að það yrði tilkynnt strax væri leiðtoginn látinn eða þungt haldinn, fyrst yrði fundinn arftaki. Það býst enginn við uppreisn eða hatrammri valdabaráttu en sérfræðingar eru þó ekki alveg í rónni, Norður-Kórea er ekki land sem má við miklum óstöðugleika.

Hverjir koma til greina?

Það lægi beinast við að Choe Ryong Hae, sem er næstæðstur innan verkalýðsflokksins á eftir sjálfum leiðtoganum tæki við, Vandamálið er að Ryong Hae er ekki ættinni. Sérfræðingar telja líklegt að arftakinn  yrði blóðskyldur Kim Jong Un. Hann er talin eiga þrjú börn, en þau eru of ung til að taka við. Eldri bróðir hans Kim Jong Choi er einkum þekktur fyrir aðdáun sína á Eric Clapton og hefur ekki sýnt nokkurn áhuga á stjórnmálum. Konan leiðtogans, Ri Sol Ju, kemur hugsanlega til greina, hún hefur fengið í hendurnar meiri völd en áður hefur þekkst og sæmd titlinum forsetafrú árið 2018. Svo má nefna Kim Pyong, hálfbróður föður leiðtogans, sem lengi gegndi sendiherrastöðum í Austur-Evrópulöndum. Hann sneri heim til Norður-Kóreu frá Tékklandi í fyrra en síðan hefur ekkert spurst til hans. 

Trúnaðarvinur og tölvunarfræðingur

Augu margra beinast nú að yngri systur Kim Jong un sem heitir Kim Yo Jong. Þau eru börn Kim Jongs Il og þriðju konu hans kóresk-japanska dansarans Ko Yong Hui. Kim Yo Jong er sögð hafa verið eftirlæti föður síns sem kallaði hana prinsessuna sína. Hún er fjórum árum yngri en bróðir hennar og er sögð  trúnaðarvinur hans og einn helsti ráðgjafi, þau ólust upp saman og gengu saman í skóla í Sviss, á árunum 1996 til 2000, vörðu tíma sínum utan skólans saman í hálfgerðri einangrun meðvituð um að þeirra biði allt öðruvísi framtíð en skólafélaganna. Yo Jong kom heim og nam tölvunarfræði við háskóla kenndan við afa sinn, hún hefur verið virk í verkalýðsflokknum frá árinu 2007 og sögur herma að hún hafi verið ritari föður síns til dánardags. Árið 2011 sást hún fyrst opinberlega sem meðlimur Kim-ættarinnar í jarðarför föður síns. Á allra síðustu árum hefur hún unnið sig hratt upp.  Árið 2017 komst hún til æðstu metorða innan verkalýðsflokksins og árið 2018 stal hún senunni á Vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu. Hún fór þangað fyrir hönd bróður síns með skilaboð til forseta landsins, Moon Jae-in, um að Kim Jong Un væri tilbúinn til friðarviðræðna. Þetta var í fyrsta sinn sem meðlimur Kim-ættarinnar steig fæti inn í landið.

Stýrir ímynd bróður síns

Yo Jong er talin skipuleggja dagskrá bróður síns og stýra ímynd hans innanlands sem utan, hún hefur fylgt honum í hinar ýmsu verksmiðjuheimsóknir og  til fundar við bæði Donald Trump Bandaríkjaforseta og Xi Jinping, forseta Kína. Eftir að viðræður Norður-Kóreu og Bandaríkjanna um afvopnun fóru út um þúfur virðist Kim Jong Un hafa sinnast við systur sína, kennt henni um hvernig fór. Hún missti stöðu sína innan flokksins og lét lítið fyrir sér fara um skeið en í ár komst hún aftur í innsta hring flokksins. Líklega þarf hún þó að passa sig á því að skyggja ekki á bróður sinn, það getur farið illa fyrir fjölskyldumeðlimum sem ekki þóknast honum. Hann lét ráða frænda sinn af dögum og er talinn hafa staðið á bak við morðið á hálfbróður sínum, sá var myrtur með taugaeitri á flugvelli í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu árið 2017. 

Ivanka Trump Norður-Kóreu

Í fyrstu var Kim Yo Jong fáorð og lítið áberandi, hún rauk til og rétti leiðtogum penna eða bróður sínum öskubakka þegar á þurfti að halda, hvarf svo aftur í skuggann. Nú er hún stigin út úr skugganum, hún er aðsópsmikil og valdmannsleg. Sumir kalla hana Ivönku Trump Norður-Kóreu. Yo Jong er sögð greind, skipulögð og meðvituð um eigin völd, orðljót á köflum, yfirlætisfull með torrætt bros. 

Kim jong un virðist treysta systur sinni fullkomlega og líta á hana sem framlengingu á sjálfum sér, þannig fær hún að stýra viðræðum og senda erlendum þjóðarleiðtogum yfirlýsingar í eigin nafni. 

Líkti grönnunum í suðri við hræddan hund

Þegar Suður-Kórea gagnrýndi hernaðaræfingar granna sinna sagði Yo Jong gagnrýnina minna á gelt í hræddum hundi og hún gerði Donald Trump grein fyrir því að þó tengslin milli hans og bróður hennar væru góð gilti það ekki um tengsl Bandaríkjanna og Norður-Kóreu, ekki enn sem komið er, vonandi verði tengsl ríkjanna jafn góð en þangað til muni Norður-Kórea halda áfram á vegferð sinni í átt að auknum völdum. Þessi orð hennar eru talin gefa vísbendingar um áherslur í samskiptum við Bandaríkin, kæmi til þess að hún yrði leiðtogi ríkisins. 

Kona í konfúsísku feðraveldi

Hersýning í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, 15. apríl 2017
 Mynd: EPA
Hermenn á Degi sólarinnar, 15. apríl 2017,

Það sem helst er talið koma í veg fyrir að Kim Yo Jong taki við af bróður sínum er kyn hennar, konur og karlar eru jöfn fyrir lögum og því engin lagaleg formsatriði sem koma í veg fyrir að kona leiði landið. Það er menningin. Kim Yo Jong er kona í konfúsísku feðraveldi, samfélagi þar sem karlar hafa lengi ráðið yfir konum og þeir eldri yfir þeim yngri. Sérfræðingum í málefnum Norður-Kóreu ber ekki saman. Sumir segja að Kim Yo Jong gæti aldrei orðið framtíðarleiðtogi hún nyti ekki stuðnings hersins og gæti ekki haldið völdum. Það væri líklegra að við tæki herstjórn. Aðrir segja segja blóðtengsl og stöðu innan verkalýðsflokksins mikilvægari en kyn. Yo Jong sé einfaldlega leiðtogi sem eigi tilkall til embættisins, hverfi bróðir hennar af sjónarsviðinu, og að mörgu leyti betur undirbúinn en hann var þegar hann tók við fyrir níu árum. Hún kunni að leika leikinn og gamlir hershöfðingjar myndu sjá hag sinn í að þóknast henni.