Ísfirska stuðbandið Sjökvist gefur út lag í kófinu

29.04.2020 - 07:00
Ísfirska stuð- fjölskyldu- og kófhljómsveitin Sjökvist flytur lag sitt, Klukkan er eitt, í stofunni á heimili sínu, húsinu Sjökvist við Tangagötu á Ísafirði.
 Mynd: Eiríkur Örn Norðdahl
Ísfirska stuðbandið Sjökvist hefur stundað stífar æfingar frá 1. apríl. Dagurinn í gær var stór dagur í sögu sveitarinnar, því þá sendi hún sitt fyrsta, frumsamda lag út í alheiminn á samfélagmiðlinum Youtube. Hljómsveitarmeðlimirnir þrír eru 7, 10 og 42 ára. Aldursforseti bandsins segir þetta fyrsta lag sveitarinnar mögulega líka það síðasta, þar sem skólastarf hefst á ný eftir helgi.

Sjökvist er ekki bílskúrsband, heldur meira stofusveit og fjölskylduhljómsveit sem starfað hefur af krafti í kófinu. Í henni eru þau Aino Magnea og Aram Nói Nödju- og Eiríksbörn og Eiríkur Örn Norðdahl, faðir þeirra.

Frumraun sveitarinnar, Klukkan er eitt, birtist á Youtube í gær. Lagið er eftir Aino Magneu en textann sömdu þau saman systkinin, Aino og Aram. Þau voru farin að sofa þegar fréttastofan hafði samband vestur á Ísafjörð í gærkvöld til að forvitnast um þennan nýjasta sprota vestfirsku rokkflórunnar, svo aldursforsetinn faðir þeirra varð fyrir svörum.

Stuðband sem ætlar ekkert endilega út úr stofunni

„Sjökvist er stuðband sem stefnir fyrst og fremst að stuði fyrir meðlimina. Við höldum ótrauð áfram en ætlum ekkert endilega út úr stofunni," segir Eiríkur og upplýsir, að fram að kófinu hafi bandið æft einu sinni til tvisvar í viku.

„Við reyndum að hafa æfingar bara þegar við nenntum frekar en eftir einhverju skema." Eiríkur er gítarleikari sveitarinnar, Aino Magnea syngur og leikur á bassa en Aram sér um trommuleikinn.

Daglegar æfingar frá 1. apríl

„Við Aram höfum oft gripið í saman eitthvað djamm bara. Síðan 1. apríl höfum við öll verið heima og settum strax í dagskinnuna að þegar þau væru búin með heimanámið sem sett var fyrir úr skólanum, yfirleitt upp úr 11, myndum við grípa í hálftíma hljómsveitaræfingu," segir Eiríkur, sem Íslendingar þekkja flestir betur sem skáld en tónlistarmann.

„Ég yrki, þau læra og svo djömmum við og förum í hádegismat. Við höfum aðallega verið að spila lög sem ég spilaði sjálfur sem unglingur. Mest af því að ég kann þau. Babe I'm Gonna Leave You, Zombie með Cranberries, Born to be Wild og svo gerðum við sóttkvíartexta við Wild Thing  fyrir ömmu þeirra og afa sem við höfum ekki getað hitt. Höfum líka aðeins kíkt á Fjöllin hafa vakað. En Klukkan er eitt er fyrsta og eina alveg frumsamda lagið." 

Byrjaði sem bassariff

En hvernig skyldi þessi drungalega en þó draumkennda og seiðandi rokkballaða - með grjóthörðu öskurívafi - hafa orðið til? „Aino byrjaði að gutla þetta á bassann á einni æfingunni, þegar við vorum að prófa að renna bassanum í gegnum tremolo pedal, og þar varð grúvið til," segir gítaristinn með hattinn. „Þau settust svo niður systkinin og börðu saman texta. Hann fjallaði um svefn af því þeim fannst þetta svo syfjulegt lag, harði kaflinn kom aðeins síðar."

Sjökvist er hús og sænskur andi

Sem fyrr segir heitir sveitin Sjökvist, og það á sér rökréttar skýringar. „Húsið okkar heitir víst Sjökvist, það eru á því svo margir kvistir. Svo hljómar það svolítið sænskt og við höfum þess vegna haft það í hávegum, börnin eru hálfsænsk, annars hefur lítið verið gert með það held ég." 

Tveir þriðju bandsins í tónlistarnámi

Eiríkur, sem dundar sér við gítarsmíði, gítargutl og blúsleik og -söng meðfram ritstörfunum, segir hina hljómsveitarmeðlimina báða í tónlistarnámi. „Aram er búinn að spila í að verða tvö ár en Aino, sem er nýorðin sjö ára, byrjaði eftir áramót. Ég samdi við hana þegar hún gafst upp á píanónámi að hún myndi velja sér nýtt hljóðfæri og hún valdi bassa. Ég þurfti að hafa aðeins fyrir því að finna nógu lítinn bassa,“ segir gítarsmiðurinn.

„Aram hefur verið að læra á trommur í Tónlistarskólanum hérna og Aino var í píanónámi í Listaskóla Rögnvaldar. En ég tók að mér að vera bassakennarinn hennar. Hún er í svo mörgu og þetta var orðið frekar yfirþyrmandi prógramm. Hún vildi meiri frið á daginn og við getum tekið bassaæfingarnar eftir kvöldmat eða á helgum þegar tónlistarskólar væru annars lokaðir."

Gítarstilling Högna í Hjaltalín gerði gæfumuninn

Sjökvist er ekki eina bandið sem tíu ára trommuleikarinn Aram er í, því hann er líka í hljómsveit „með vinum sínum, Þórði Skúlasyni - syni Skúla mennska frænda okkar og Unu Sveinbjarnar, fyrstu fiðlu sinfóníunnar - og Hálfdáni Ingólfi Hálfdánssyni - syni Hálfdáns Bjarka úr þeirri fornfrægu sveit Mömmu Hest og Dóru Hlínar Gísladóttur,“ upplýsir hattprútt skáldið.

„Þeir geta ekki æft mikið af því Þórður á heima í Reykjavík og Hálfdán tók upp á því að flytja til Bandaríkjanna. En hafa þó haldið a.m.k. tvær æfingar á Skype í kófinu. Og gerðu góða lukku í götuspilamennsku í sumar  ekki síst eftir að Högni í Hjaltalín kom og stillti gítarinn þeirra, það gerði víst alveg gæfumuninn," upplýsir Eiríkur Örn.

Áhrifin sótt í ýmsar áttir

Um helstu áhrifavalda sveitarinnar segir Eiríkur að þeir komi úr ólíkum áttum. „Við hlustum mikið á tónlist saman en eigum okkur öll ólíka eftirlætis listamenn. Aram heldur mikið upp á rokk  Motörhead, AC/DC og Van Halen eru hátt á blaði, líka Iron Maiden og Skálmöld. Ég hlusta mest á blús núorðið en Guns N' Roses eiga hjartað í mér  og Tom Waits. Aino er grjótharður Prince aðdáandi en hefur verið að fikra sig inn í Beyoncé-katalóginn upp á síðkastið."

Reiknar með að verða rekinn úr bandinu

Sem fyrr segir reiknar Eiríkur ekkert frekar með því að stuðbandið Sjökvist ætli sér út úr stofunni þegar kófinu léttir, en þangað til verður haldið áfram að spila. „Ég reikna svo með því að verða rekinn í fyllingu tímans, settur á fleka og sendur út á haf. Ég sé mig sem svona Stu Sutcliffe-týpu í þessu bandi en ætla bara að njóta þess meðan það gefst.

Aram segir að það gangi yfirleitt mjög vel hjá systkinaböndum  það sé einhver galdur í því  ég efast ekki um að það sé satt," segir ástríðukokkurinn og plokkfiskssérfræðingurinn Eiríkur Örn, sem horfir bjartsýnn til rokkframtíðar barna sinna.

Hasse Andersson-áhrifin eru áhyggjuefni

Eitt veldur honum þó nokkru hugarvíli, og Nödju Sophie, móður rytmaparsins líka. „Þau hafa bæði mjög nýverið fengið óvæntan áhuga á sænska dansbands-kónginum Hasse Andersson, okkur móður þeirra til mikillar armæðu, eftir að hann birtist í sænsku Krakkafréttunum. Ganga um syngjandi og trallandi Guld och gröna skogar allan lífslangan daginn. Það verður ekki spilað í Sjökvist fyrren það er búið að reka mig," segir blúsmaðurinn og bassakennarinn Eiríkur Örn Norðdahl að lokum, áhyggjufullur að vonum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi