Innkalla slím vegna efnis sem getur valdið eitrun

29.04.2020 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrjár verslanir hafa að undanförnu innkallað leikfangaaslím. Innköllunin er ekki bundin við einn framleiðanda og nær yfir margar tegundir. Ástæðan er að rannsóknir hafa leitt í ljós of hátt gildi bórax, en það getur valdið eitrunum og líkamlegum jafnt sem andlegum einkennum.

Neytendastofa bendir á að verslanirnar A4, Kids Cool Shop og Hagkaup hafa öll innkallað slím frá framleiðendunum Robetoy, Toi-toys og Goobands í kjölfar markaðseftirlitsátaks í Evrópu. Viðskiptavinum er bent á að skila vörunum til verslana og fá endurgreitt.

Húðin getur soðnað

Rúmt ár er síðan Neytendastofa og landlæknir vöruðu við notkun leikfangaslíms, jafnt heimatilbúins sem aðkeypts. Bórax geti valdið útbrotum, flogi, þunglyndi og örlyndi. Vitað er um tilvik hér á landi þar sem barn hefur orðið fyrir eitrun, en töluverðan tíma tók að tengja veikindin við slím. Barninu batnaði nokkrum vikum eftir að það hætti að handfjatla það.

„Ef það er verið að hnoða þetta í höndunum þá getur húðin soðnað og þá á efnið enn greiðari leið inn í líkamann. Og það er hægt að sjá einkenni frá meltingarfærum eins og lystarleysi, hægðatregðu og megrun. Og síðan frá miðtaugakerfi eins og höfuðverk, kvíða, þunglyndi, jafnvel ofskynjanir og einkenni sem hreinlega geta líkst geðrofi,“ sagði Alma D. Möller landlæknir í frétt RÚV í fyrra um afleiðingar þess að bórat berist inn í líkamann.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi