Guðjón Valur Sigurðsson hóf handboltaferilinn árið 1995 með Gróttu og svo með KA á Akureyri áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Fyrsta landsleikinn spilaði hann árið 1999 og hefur síðan þá farið á 22 stórmót með íslenska landsliðinu, þar af 11 Evrópumót í röð.
Guðjón hefur orðið landsmeistari í fjórum löndum nú síðast í Frakklandi með PSG. Hann hefur leikið með mörgum af bestu félagsliðum heims; Kiel í Þýskalandi, Barcelona á Spáni og nú síðast með PSG í Frakklandi. Hann á að baki 364 landsleiki og er markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 1875 mörk.
Guðjón Valur tilkynnti ákvörðun sína á Instagram. Þar þakkar hann öllum sem hafa stutt við bakið á honum á löngum handboltaferli sínum.
„Handboltinn hefur opnað mér heim sem fáum auðnast og ég hefði aldrei ímyndað mér að ég ætti eftir að upplifa þegar ég var ungur gutti í Gróttu. Það sem eftir lifir eru minningarnar, bæði þær sætu og þær sáru, og fólkið sem ég hef kynnst á leiðinni. Takk fyrir mig.“
Færsluna má lesa hér að neðan.
Fréttin verður uppfærð