Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Grafalvarlegt ef kennsla fellur niður vegna verkfalls

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Stúlka í Kársnesskóla segir það grafalvarlegt ef fella þarf niður kennslu í næstu viku vegna verkfalls Eflingar. Hún hefur kvartað til umboðsmanns barna. Hún hefur lítið getað mætt í skólann í tæpa tvo mánuði vegna verkfalla og veiru.

Á hádegi á þriðjudag leggja 274 félagsmenn í Eflingu niður störf, náist ekki samningar við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir þann tíma. Formaður samninganefndar sveitarfélaganna er ekki bjartsýnn á það semjist í bráð, svo miklar séu kröfur Eflingar. Verkfallið hefði mikil áhrif á grunnskóla í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Ölfusi. Skólaliðar sjá um þrif, sótthreinsun og gæslu í frímínútum. Einnig raskast starfsemi nokkurra leikskóla. Þá vinnur Eflingarfólk við heimaþjónustu.

Slakað verður á samkomubanni á mánudag. Því ætti venjulegt skólahald að verða í skólabyggingum á mánudag og fram að verkfalli á hádegi á þriðjudag. Kársnesskóli er einn þeirra skóla sem verður að fella niður kennslu í skólanum sjálfum komi til verkfalls. Kristín Þórisdóttir, hefur sent umboðsmanni barna bréf, lýst áhyggjum sínum af verkfalli og segir það ekki boðlegt.

„Ég varð eiginlega pínu pirruð satt að segja. Þannig að ég ákvað að setja þennan pirring í eitt bréf. Mér var eiginlega bara pínu ofboðið ef ég á að vera hreinskilin, af því að mér fannst bara of mikill ruglingur í skólakerfinu. Tveir mánuðir af fjarnámi er ekki nógu mikil menntun fyrir mig alla vega. Sumir eru búnir að fara í skólann í einu sinni viku í einhvern hálftíma. En ekki nógu mikið skólahald til þess að þetta sé kölluð menntun, finnst mér. Það þarf að hafa hag barna að leiðarljósi í þessu máli því mér finnst ekki nógu mikið fjallað um hag barna þegar kemur að þessu verkfalli hjá Eflingu. Ég las líka Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mér finnst ekki verið að fara eftir nokkrum greinum þar,“ segir Kristín.

Hún vitnar í sáttmálann í bréfi sínu og þar kemur fram að börn eiga rétt á grunnmenntun og aðildarríkjum ber að koma á skólaskyldu og gera ráðstafanir sem stuðla að reglulegri skólasókn.

Kristín segir að mörgum jafnöldrum hennar finnist erfitt að vera mikið heima við. 

„Og líka félagsleg einangrun getur verið hættuleg og sumir, margir eru búnir að fara á geðdeild, jafnaldrar mínir um land allt. Þannig að þetta er náttúrulega grafalvarlegt mál,“ segir Kristín.

Umboðsmaður svaraði Kristínu um hæl og hefur sent bréf bæði á Eflingu og sveitarfélögin og hvetur þau til að semja og afstýra verkfalli.