Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjárfestar bregðast vel við uppgjöri Símans

29.04.2020 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Hlutabréf í Símanum hafa hækkað um 3,7 prósent í morgun. Um klukkan hálftólf nam velta með bréf í félaginu 436 milljónum króna. Félagið birti uppgjör fyrsta fjórðungs ársins í gær.

Í uppgjörinu kemur fram að tekjur fyrirtækisins jukust um 284 milljónir króna frá sama tímabili í fyrra, eða um 4,1 prósent. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, svokölluð EBITDA, hækkaði um 366 milljónir króna.

Hagnaður eftir skatta jókst um 149 milljónir króna, eða 24 prósent. 
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir viðskiptavini hafa nýtt sér sjónvarpsþjónustu fyrirtækisins og gagnaflutningskerfi meira en áður hefur sést. „Hefðbundnum símtölum í farsíma og talsíma fjölgaði einnig hratt þegar leið á fjórðunginn. Hafa ber í huga að aukin notkun núverandi viðskiptavina skilar jafnan litlum afkomubata þar sem mánaðarverð eru að mestu föst,“ segir Orri. 

Orri segir að gengislækkun krónunnar hafi áhrif á rekstur fyrirtækisins, enda séu fjárfestingar og hluti rekstrarkostnaðar í erlendri mynt. En það líði smá tími þar til gengi lækkar og þangað til innlend smásöluverð breytast. 
Orri bendir líka á að vaxtalækkanir Seðlabankans verki í gagnstæða átt við gengislækkunina og lækki fjármagnskostnað. Þá bendir Orri á að enski boltinn hafi verið stöðvaður og engir leikir fari fram fyrr en í fyrsta lagi seint í maí. Það lækki áskriftartekjur Símans á öðrum ársfjórðungi.

„Enn getur það gerst að tímabilið verði flautað af án frekari leikja, þótt ólíklegt sé, en í slíku tilfelli munum við gera kröfu um endurgreiðslu hluta sýningarréttarins. Við höfum þegar greitt fyrir stærstan hluta alls sýningartímabilsins, sem er 2019-2022,“ segir Orri. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV