Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ferðatakmarkanir ráða því hvenær fólk verður sent heim

29.04.2020 - 20:12
Mynd með færslu
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er meira og minna mannlaus þessa dagana. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Útlendingum sem eru með útrunnin dvalarleyfi á Íslandi verður ekki gert að yfirgefa landið fyrr en ferðatakmarkanir verða rýmkaðar og samgöngur til og frá landinu komast í eðlilegt horf að sögn upplýsingafulltrúa dómsmálaráðuneytisins.

Útlendingastofnun tilkynnti í byrjun apríl að útlendingar sem staddir eru hér á landi og komast ekki til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar megi dvelja hér án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til 1. júní 2020. Er það samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem bætt var við reglugerð um útlendinga og gildir um þá sem dvöldu á Íslandi þegar ferðatakmarkanir voru settar á vegna kórónuveirunnar 20. mars.

Flugferðir eru afar takmarkaðar um þessar mundir og oftast ekki nema ein ferð til og frá landinu á dag. Í ljósi þess segir Hafliði Halldórsson, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, að líkur séu á að fresturinn verði framlengdur.

„Ráðuneytið er meðvitað um þessa stöðu og ef hún verður óbreytt fyrsta júní þá verður horft til þess og dagsetningin færð,“ segir Hafliði.

Á meðan ástandið er svona óvenjulegt hefur það ekki afleiðingar fyrir fólk ef dvalarleyfi þeirra eða vegabréfsáritun rennur út. 

„Það er fólk sem er hérna innlyksa og ef staðan er sú að fólk kemst ekki neitt er auðvitað lítið hægt að gera,“ segir Hafliði.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV