Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eiga að finna framtíðarlausn fyrir Sundabraut

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðuneytið
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur lagt fyrir starfshóp undir forystu Vegagerðarinnar, að meta á ný hönnun og legu Sundabrautar. Starfsfhópurinn á að gera nýtt kostnaðarmat fyrir jarðgöng og lágbrú og leggja til framtíðarlausn um legu Sundabrautar. Niðurstaðan á að liggja fyrir í lok ágúst.

Greint er frá þessu á vef stjórnarráðsins. Sigurður Ingi deilir færslunni á Facebook og segir það að í lok sumars fái hann tillögu að framtíðarlausn sem fest verði í skipulagi. „Gera má ráð fyrir því að 1600-2000 ársverk skapist vegna framkvæmdarinnar hjá verktökum og um 3-400 ársverk hjá öðrum í undirbúningi, hönnun, umsjón og eftirliti.“ Sigurður Ingi segir að leiðin úr miðbæ Reykjavíkur upp á Kjalarnes styttist um níu kílómetra og margar dýrmætar mínútur ef umferðin er þung.

Á vef stjórnarráðsins segir að Vegagerðin leiði vinnu starfshóps. Í honum sitja fulltrúar Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóahafna. Starfshópurinn á að endurmeta hönnun og legu Sundabrautar og gera kostnaðarmat fyrir jarðgöng og lágbrú. Hópurinn á líka að greina valkosti fyrir breytt skipulag Sundahafnar ef lágbrú verður fyrir valinu, hún myndi fara í gegnum hafnarsvæðið við Sundahöfn. Meðal kosta ganga er talið að þau trufli ekki starfsemi Sundahafnar og meðal kosta lágbrúar er talið að hún henti fleiri ferðamátum en göng. Lágbrú er talin talsvert ódýrari en jarðgöng en gera á nýtt kostnaðarmat.