Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bílsprengja grandaði minnst 46 í Sýrlandi

epa07078129 A man waves to Turkish soldiers on tanks near the Syrian-Turkish border, at Reyhanli district in Hatay, Turkey, 21 January 2018. Reports state that the Turkish army is on an operation named 'Operation Olive Branch' in Syria's northern regions against the Kurdish Popular Protection Units (YPG) forces which control the city of Afrin. According to YPG media channels, bombings by the Turkish military killed at least 10 people earlier on the same day. Turkey classifies the YPG as a terrorist organization.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: epa
Minnst 46 manns týndu lífi og 50 særðust þegar olíuflutningabíll var sprengdur í loft upp í borginni Afrín í norðanverðu Sýrlandi í gær. Langflest hinna látnu og særðu eru óbreyttir borgarar, þar á meðal á annan tug barna. Í hópi fallinna eru líka minnst sex liðsmenn vopnaðra sveita uppreisnarmanna sem hafa bæði tögl og hagldir í Afrínborg með stuðningi Tyrkja.

Þetta er haft eftir Rami Abdul Rahman, framkvæmdastjóra Sýrlensku mannréttindavaktarinnar, sem er með höfuðstöðvar í Bretlandi en sækir upplýsingar sínar til sjónarvotta á vettvangi.

Í gær var greint frá því að minnst 36 hefðu farist í sprengingunni en tekið fram að fleiri hefðu mögulega fallið. Sá fyrirvari er einnig á þessum tölum, því Rahman segir nokkur hinna særðu á milli heims og helju og líkur á að einhver þeirra eigi eftir að látast af sárum sínum.

Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér, en hún ein sú mannskæðasta sem gerð hefur verið í Afrín eftir að Tyrklandsher og uppreisnarsveitir hliðhollar Tyrkjum náðu borginni á sitt vald í mars 2018, eftir harða bardaga við sveitir Kúrda. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV