Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Auður með tónleika í beinni í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Bent - Hljómskálinn

Auður með tónleika í beinni í kvöld

29.04.2020 - 08:49

Höfundar

Tónleikaröðin Látum okkur streyma heldur áfram í kvöld og nú er röðin komin að Auði. Tónleikar hans í Hljómahöllinni hefjast kl. 20 í kvöld og verða í beinni útsendingu á Rás 2, á RÚV.is og Facebook-síðu Hljómahallarinnar.

Tónleikaröðin Látum okkur streyma hófst fljótlega eftir að samkomubann tók gildi. Hljómahöllin hafði þurft að fresta eða hætta við alla fyrirhugaða viðburði en ákvað að bjóða upp á stafræna tónleika með mörgum af vinsælustu hljómsveitum og listamönnum landsins. 

Auður hefur verið einn vinsælasti listamaður þjóðarinnar allt frá því að hann sendi frá sér plötuna Afsakanir árið 2018 en það er önnur breiðskífa hans. Platan sló rækilega í gegn og Auður hlaut átta tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötuna. Að undanförnu hefur Auður verið iðinn við kolann. Hann gaf út smáskífuna Enginn eins og þú síðasta sumar sem varð eitt vinsælasta lag ársins. Það sem af er ári hefur hann sent frá sér lagið Hún veit hvað ég vil ásamt hljómsveitinni Mezzaforte, en lagið hefur notið mikilla vinsælda. Nýlega kom svo út þröngskífan Ljós sem inniheldur fjögur ný lög. 

Tónleikarnir í kvöld hefjast kl. 20 og að venju verður þeim útvarpað beint á Rás 2 auk þess sem hægt er að horfa á tónleikana á vefnum og á Facebook-síðu Hljómahallarinnar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Kælan mikla kemur fram á Látum okkur streyma

Tónlist

Hjálmar á lokakvöldi Látum okkur streyma

Tónlist

Röðin komin að GDRN á Látum okkur streyma

Tónlist

Látum okkur streyma með Moses Hightower