Víðir opinn fyrir komu tökuliða frá Hollywood

28.04.2020 - 15:40
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir það koma til greina að hleypa erlendum kvikmyndagerðamönnum til landsins í sumar til að vinna verkefni hér á landi. Allt sem rúmist innan sóttvarnahugsunarinnar komi til greina.

„Við höfum verið að skoða þetta út frá mörgum sjónarhornum og það skiptir ekki máli hvert starfið er.“ Víðir nefndi sem dæmi fiskeldi sem hefur verið að fá sérfræðinga til landsins. Allt gangi þetta út frá hugmyndafræði í kringum sóttvarnir.

Hann sagði sóttvarnalækni hafa lagt til ákveðna vinnu við skoðun á því hvernig hægt væri að koma ákveðinni starfsemi í gang.  Það yrði forvitnilegt að sjá hver yrði niðurstaða þeirrar.

Fréttastofa greindi frá því í gær að sóttvarnalæknir hefði fengið erindi í síðustu viku þar sem óskað var eftir samtali um hvernig væri hægt að greiða götur erlendra tökuliða sem hingað vildu koma. Meðal þess sem hefur verið nefnt er að skima allt tökuliðið fyrir COVID-19 og að þeim verði gert að halda sig á afmörkuðum svæðum. Tökuliðin myndu leigja hótel sem yrðu eingöngu fyrir þau og koma til landsins með leiguflugi.

Einar Hansen Tómasson hjá Film in Iceland sagði í samtali við fréttastofu í gær að beðið væri eftir viðbrögðum frá yfirvöldum. „Við viljum fá að vita hvort þetta sé tóm vitleysa eða ekki. Þetta hefst allt með samtalinu.“

Erlend kvikmyndaver hafa sýnt Íslandi áhuga eftir yfirlýsingu yfirmanns hjá streymisveitunni Netflix um að fyrirtækið væri með framleiðslu í gangi í tveimur löndum; Íslandi og Suður Kóreu. Ástæðan væri sú að þetta væru þau tvö lönd sem hefðu staðið sig hvað best í að skima fyrir kórónuveirunni og rekja smit.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi