Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Við treystum á þessar fjárhæðir inn í framtíðina“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við treystum á þessar fjárhæðir inn í framtíðina“

28.04.2020 - 19:04
Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir aðgerðir Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, í gær ekki snúast um aukainnspýtingu, heldur aðgang að framtíðartekjum KSÍ. Stíga þurfi varlega til jarðar varðandi notkun á fénu.

Í gær bárust fréttir af styrkveitingu frá UEFA til allra 55 aðildarsambanda. KSÍ sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem áréttað var að ekki væri um nýja innspýtingu að ræða í rekstur KSÍ heldur snemmbúinn aðgang að framtíðartekjum KSÍ, allt að 700 milljónum króna, úr styrkjakerfi UEFA.

„Þetta eru í raun og veru styrkir sem knattspyrnuhreyfingin getur nýtt sér þá, sérsamböndin, eins og KSÍ til að reka sína starfsemi eins og varðandi mótahald, varðandi landsliðin, varðandi fræðslukerfin og svo framvegis,“ segir Guðni. „Staðreyndin er sú að við treystum á þessar fjárhæðir inn í framtíðina til þess að reka knattspyrnusambandið, þannig við þurfum að fara mjög varlega í sakirnar með það og reyna að leysa málin með öðrum hætti en að taka núna framtíðartekjur okkar til þess að leysa einhver vandamál núna heldur er betra að nota okkar sjóði til þess eða nota aðrar leiðir frekar en að nota okkar framtíðartekjur,“  segir hann.

En finnur þú fyrir þrýstingi frá íslenskum knattspyrnufélögum að nota féð sem KSÍ hefur nú aðgang að til að létta undir með félögum í rekstrarvanda?

„Ekkert sérstaklega, það er bara mjög stutt síðan þetta kom út auðvitað, þetta vakti athygli þetta eru miklar upphæðir í íslensku umhverfi, við höfum nú þegar skýrt málið og reynt að leiðrétta þetta og benda á hvað þetta raunverulega er og svo tökum við auðvitað umræðuna almennt séð og erum í stöðugu sambandi við aðildarfélagin og erum að reyna að greina vandann og gera plan um hvað við getum gert með félögunum og erum bara á fullu í því,“ segir Guðni. 

„Fyrir utan auðvitað að sinna hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og reyna að fá þau í lið með okkur að styðja við okkur eins og íþróttahreyfinguna alla og ég held að það sé bara mjög mikilvægt,“ segir Guðni Bergsson.