Útkall til leitar eftir að sjóblaut föt fundust í fjöru

28.04.2020 - 13:07
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Christopher Lund - Hafnarstjórn Þorlákshöfn
Lögreglan á Suðurlandi hefur óskað eftir því að björgunarsveitir kalli út bátaflokk til öryggisleitar í og við Skötubót í Þorlákshöfn, eftir að þar fannst sjóblautur fatnaður, stuttbuxur, skór og sokkar, í fjöru.

Að sögn lögreglu er ekki vitað til þess að neins sé saknað en rétt þykir að bregðast strax við og kanna málið vel. Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar á Suðurlandi á Facebook. 

Ef einhver kann skýringar á tilvist þessa fatnaðar á þessum stað er sá hinn sami beðinn að hafa samband við lögreglu í síma 444-2000, á Facebook eða í 112.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV