Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirgöng ekki raunhæf við Hörgárbraut

28.04.2020 - 10:49
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Lagðar hafa verið til úrbætur vegna umferðaröryggis á Hörgárbraut á Akureyri. Ekki er talið raunhæfur kostur að gera undirgöng eða göngubrú. Fimm aðgerðir koma til kastanna á þessu ári.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur lagt til úrbætur til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut, milli Glerár og Undihlíðar. Íbúar við Hörgárbraut á Akureyri hafa endurtekið kallað eftir auknu öryggi fyrir gangandi vegfarendur vegna tíðra slysa við götuna.

Fjórum sinnum hefur verið ekið á gangandi vegfarendur við Hörgárbraut síðan árið 2016, nú síðast í febrúar þegar ekið var á sjö ára stúlku. Gönguljós hafa verið á báðum gangbrautum síðan 2018 en íbúar óska eftir að gerð verði undirgöng.

Vinna að lækkun umferðarhraða

Skipulagsráð leggur til fimm úrbætur sem eiga að koma til á árinu. Þrjár þeirra snúa að að lækkun umferðarhraða. Í fyrst lagi að setja upp skilti sem vara við gönguþverunum, umferð barna og segja til um hámarkshraða. Þá er lagt til að sett verði upp skilti sem sýni raunhraða ökutækja og hraða- og rauðljósamyndavél í samráði við lögreglu. Í þriðja lagi að lokað verði fyrir hjáleið frá Höfðahlíð inn á lóð N1 og að ljósatími gönguljósanna verið endurstilltur.

Lækkun hámarkshraða og breytingar á gönguþverunum

Þá er lagt til að gróðursett verði tré á milli akreina á næstu árum, þau séu talin auka þéttbýlisupplifun ökumanna og þar með hafa áhrif á ökuhraða. Skili þessar aðgerðir ekki árangri eru fleiri tillögur lagðar til sem krefjast lengri undirbúnings eins og lækkun hámarkshraða og breytingar á gönguþverunum. 

Undirgöng eða göngubrú ekki talin raunhæfur kostur

Ekki er talið raunhæft eða skynsamlegt að fara í gerð undirganga eða göngubrúar á þessum stað. Efla verkfræðistofa var fengin til að skoða hvernig mætti koma því fyrir og niðurstaðan var að vegfarendur þyrftu að breyta töluvert af leið og því sé hætta á að fólk nýti ekki undirgöngin eða göngubrúna. Þá séu undirgöngin niðurgrafin með stuttum aðdraganda sem skerði sýn vegfarenda inn og úr göngunum sem geti valdið skertri öryggistilfinningu.

Að auki hafi nýlega verið lögð stór hitavatnslögn meðfram götunni og kostnaður við að færa hana metinn 35-40 milljónir. Heildarkostnaður við undirgöng gæti verið um 300-350 milljónir. Öryggistilfinning vegfarenda er meiri um göngubrú en þar þyrfti fólk að taka á sig enn meiri krók til þess að fara um hana. Kostnaður við hana er líka metinn á tæpar 350 milljónir.