Þróar app sem virkar sem aðstoðarkennari fyrir nemendur

Mynd: RÚV / RÚV

Þróar app sem virkar sem aðstoðarkennari fyrir nemendur

28.04.2020 - 16:13
Hinrik Jósafat Atlason, stundakennari í Háskólanum í Reykjavík, stendur á bak við gervigreindarappið Atlas Primer sem getur virkað sem eins konar aðstoðarkennari fyrir nemendur.

Hinrik fór að velta því fyrir sér fyrir nokkru síðan hvort það væri hægt að nálgast námsefni eins og hljóðbækur sem hafa í gegnum tíðina hjálpað mörgum. Hann endaði á því að ákveða að þróa app og nota til þess máltækni sem myndi þýða að nemendur gætu átt í samskiptum með því að tala við það, líkt og maður myndi tala við talþjóna á borð við Siri og Alexu.

Það hefur sýnt sig að margir ná að meðtaka upplýsingar betur þegar þeir hafa talað um efnið við samnemendur eða kennara. Appið nýtist sem eins konar aðstoðarkennari sem hægt er að tala við, láta það prófa sig, spyrja það spurninga og láta það spyrja sig spurninga. Hinrik segir að einhverjir hafi meira að segja nýtt sér appið til þess að læra á meðan þeir voru að elda eða gera eitthvað annað, sem þýðir að talsverður tími getur sparast.

Appið er á ensku og á liðnu skólaári hafa nemendur í HR hjálpað til við þróun þess. Hinrik segist spenntur að sjá hvað mun verða í framtíðinni þegar frekari þróun heldur áfram. „Það kemur auðvitað aldrei neitt í staðinn fyrir kennara en við erum að hjálpa kennurunum að ná betur til nemendanna,“ bætir hann við. 

Viðtalið við Hinrik úr Núllstillingunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan, en þar sýnir hann einnig hvernig appið virkar.