Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tafir á rannsókn Wikborg Rein á Samherjaskjölunum

28.04.2020 - 20:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tafir hafa orðið á rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á Samherjaskjölunum, og rannsókninni verður ekki lokið á þeim tíma sem stefnt var að. Þetta kemur fram í svörum lögmannsstofunnar og forstjóra Samherja við fyrirspurn fréttastofu. Kórónuveirufaraldurinn skýrir þessar tafir að hluta, samkvæmt upplýsingum frá lögmannsstofunni.

Í kjölfar þess að Kveikur birti umfjöllun sína úr Samherjaskjölunum í nóvember vék Þorsteinn Már Baldvinsson tímabundið úr starfi forstjóra fyrirtækisins. Björgólfur Jóhannsson tók þá við sem starfandi forstjóri á meðan gerð yrði innri athugun á starfsemi dótturfélags fyrirtækisins í Namibíu. Samherji fékk norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein til að gera þá athugun, en hún er í umboði stjórnar fyrirtækisins.

„Það liggur ljóst fyrir að ég var ráðinn tímabundið til þessara starfa meðan að málið væri í rannsókn og það er allavega planið okkar núna að þessu verði lokið í lok fyrsta ársfjórðungs, byrjun apríl,“ sagði Björgólfur í samtali við fréttastofu í febrúar. Þorsteinn Már snéri svo aftur til starfa í lok mars.

Nú er hins vegar ljóst að rannsókn Wikborg Rein lýkur ekki í þessum mánuði. Björgólfur segir að vinnu lögmannsstofunnar sé ekki lokið, hún hafi tafist af ýmsum ástæðum, en Björgólfur vísar að öðru leyti í upplýsingar sem fréttastofu bárust frá Geir Sviggum, einum eigenda Wikborg Rein.

Skoða hvað megi birta

Í skriflegu svari sínu til fréttastofu segir Sviggum:

„Vinna okkar stendur yfir og miðar vel. Það hafa orðið tafir vegna kórónuveirufaraldursins, ferðabanns og annarra takmarkana. Þær eru þó ekki mjög miklar. Rannsóknin heldur áfram þangað til bæði stjórn Samherja og við erum fullviss um að atriði málsins hafi verið kortlögð. Við áætlum að ljúka rannsókninni síðar í vor,“ segir í svari Sviggum.

„Þegar vinnu okkar lýkur byrjum við á að hitta stjórn Samherja og kynna henni niðurstöður rannsóknarinnar. Síðan hittum við hlutaðeigandi yfirvöld. Í kjölfarið er svo margt sem við þurfum að taka með í reikninginn varðandi hvað megi birta og hvernig, þar á meðal hvort birting upplýsinga muni stofna í hættu yfirstandandi rannsókn á vegum yfirvalda í einhverju landi, hvort birting ákveðinna upplýsinga brjóti gegn lögum og reglum um vernd ákveðinna einstaklinga sem minnst er á í niðurstöðunum og svo framvegis,“ segir ennfremur í svarinu.

Þegar Björgólfur er spurður hvort þessar tafir á rannsókninni verði til þess að hann verði starfandi forstjóri Samherja lengur en til stóð svarar hann: „Eins og kom fram þegar Þorsteinn Már kom inn aftur þá mun ég starfa áfram hjá félaginu þar til annað verður ákveðið. Þannig að ég er annar tveggja forstjóra hjá félaginu.“