Svört mánaðamót en aðgerðir stjórnvalda af hinu góða

Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta eru ein svörtustu mánaðamót í atvinnusögunni á Íslandi, gríðarlegt áfall en þó ekki alveg óvænt,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um uppsagnirnar hjá Icelandair. Hún segir aðgerðirnar sem stjórnvöld kynntu í morgun nauðsynlegar. Bjarnheiður Hallsdóttir. formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hrósar stjórnvöldum fyrir kjark. Halldór Þorbergsson, formaður SA, segir uppsagnir nú betri en lamandi óvissu, verið sé að verja störf til framtíðar.

Í Speglinum var leitað viðbragða við aðgerðunum hjá Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Bjarnheiði Hallsdóttur, formanni Samtaka ferðaþjónustunnar, Drífu Snædal forseta Alþýðusambands Íslands og Jóni Bjarka Bentssyni aðalhagfræðingi Íslandsbanka. Hlýða má á viðtölin í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.  

Aðgerðir fyrir 60 milljarða

Stjórnvöld kynntu í morgun aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum og launafólki. Lengja á tímabil hlutabótaleiðarinnar út ágúst, hægt verður að sækja um stuðning til að greiða hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti í allt að þrjá mánuði hjá fyrirtækjum sem misst hafa að lágmarki 75 prósent af tekjum sínum, og einfalda á fjárhagslega endurskipulagningu.

Aðgerðirnar gætu kostað ríkissjóð allt að 60 milljarða. Takmarkið er að forða gjaldþrotum eins og kostur er og verja réttindi launafólks. 

Mikilvægt að ASÍ komi að mótun frumvarpa

„Þetta eru ein svörtustu mánaðamót í atvinnusögunni á Íslandi, gríðarlegt áfall en þó ekki alveg óvænt,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um uppsagnirnar hjá Icelandair. Hún segir aðgerðirnar sem stjórnvöld kynntu í morgun nauðsynlegar.  Það skipti miklu máli að koma út skýrum skilaboðum um hvernig hlutabótaleiðin verði hugsuð næstu mánuði. Þá segir Drífa Alþýðusambandið leggja áherslu á að launafólk sé ekki í vistarböndum við fyrirtæki sem geti ekki staðið undir starfsmönnum til framtíðar. Hún segir gríðarlega mikilvægt að ASÍ komi að mótum frumvarpa um leiðirnar þrjár. „Það skiptir öllu máli hvaða skilyrði eru sett fyrir frekari úthlutunum úr okkar sameiginlegu sjóðum.“

„Sjálfsagt að geta beitt verkfallsvopninu“

Enn er ósamið við fjölda félaga og Efling hefur boðað verkfall í fimm sveitarfélögum á suðvesturhorninu í næstu viku. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði þetta óforsvaranlegt. Neyðast menn ekki til að slá af kröfum við þessar aðstæður? Drífa er ekki á þeirri skoðun. „Verklag vinnumarkaðarins verður að halda áfram og það er sjálfsagt verklag að fólk geti beitt verkfallsvopninu til að knýja á um kjarasamninga, þessi hópur hefur verið samninglaus frá á vormánuðum í fyrra.“ Hún hvetur samningsaðila til að setjast að samningaborðinu og semja hratt og örugglega. 

Hrósar stjórnvöldum fyrir kjark og framsýni

Fyrir viku þegar kynnt var viðspyrna stjórnvalda urðu margir í ferðaþjónustunni, sérstaklega hjá stærri fyrirtækjum, vonsviknir. Væntingarnar voru meiri. Bjarnheiður Hallsdóttir er formaður samtaka ferðaþjónustunnar, hvað finnst þér um þennan viðbótarpakka sem kynntur var í dag?„Þetta var gríðarlega mikilvægt útspil á þessum tímapunkti og eyðir óvissu sem var fyrirsjáanleg í rekstri fyrirtækjanna. Það á auðvitað eftir að útfæra þessar aðgerðir sem voru kynntar í dag en okkur finnst þær lofa mjög góðu og það er í raun verið að koma í veg fyrir að stór hluti fyrirtækja sem eru í góðum rekstri fari á hausinn. Ríkisstjórnin á finnst mér hrós skilið fyrir kjark og framsýni með þessum aðgerðum.“ Óljóst er hvort aðgerðirnar brúa bilið yfir á sem enginn veit hvað er breið en Bjarnheiður segir að með þessu séu stjórnvöld að lengja í líflínunni. „Fyrirtæki sem voru lífvænleg eiga raunverulega möguleika á að lifa af því tíminn vinnur með okkur.“

Best fyrir meirihluta fyrirtækjanna að fara í híði

Forsvarsmenn fyrirtækja tala sumir um að fara í híði, Bjarnheiður segir það besta kostinn fyrir stóran hluta ferðaþjónustufyrirtækja. „Það er best fyrir þau fyrirtæki sem eingöngu þjónusta erlenda ferðamenn að geta slökkt á sinni starfsemi, það þýðir að starfsfólki er sagt upp og það þarf að frysta skuldbindingar þannig að fyrirtækin geti bara verið í frosti þar til rofar til og geti svo keyrt sig upp hratt  og örugglega þegar tilefni gefst til.“

Uppsagnir betri en lamandi óvissa

Eiga aðgerðirnar eftir að forða mörgum fyrirtækjum frá gjaldþroti? Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir þær fyrst og fremst eyða lamandi óvissu fyrir fyrirtæki sem standa frammi fyrir nær algeru tekjufalli. „Það mun leiða til þess að mörg fyrirtæki munu grípa til uppsagna um mánaðamót sem er miklu betra en að þessi óvissa liggi áfram yfir svona stórum hluta íslensks atvinnulífs. Það kann að hljóma öfugsnúið en með því að koma til móts við fyrirtæki og greiða uppsagnafrest starfsmanna að hluta er í raun verið að verja störf til framtíðar í mínum huga þar sem fyrirtæki sem ella hefðu ekki haft neinn möguleika á að gera upp uppsagnafrest við starfsmenn sína hefðu þurft að fara í gegnum gjaldþrotaskipti hefði ekki komið til aðgerða sem voru kynntar í dag.“

Halldór segir að miðað sé við að fyrirtækin sjálf standi skil á hluta uppsagnarfresti, þá eigi eftir að útfæra hvernig farið verði með launatengd gjöld. „Við getum sagt að þetta sé flokkunaraðferð þar sem fyrirtækin sjálf; stjórnendur, eigendur og kröfuhafar, þurfi sjálfir að meta hvot fyrirtækið sé lífvænlegt til framtíðar enda þurfa þeir að leggja fram talsverða fjármuni til að virkja þessa leið. Þetta er skilvirkasta leiðin til að skilja sauðina frá höfrunum.“

Eitthvað sem ekki er fjallað um í hagfræðibókum

Talað er um að fyrirtæki fari í híði og rísi svo upp kát að vori, eiga starfsmennirnir á meðan að sitja í festum? Verður hægt að kalla þá aftur inn?Hvernig verður samband vinnuveitanda og launamanns þegar starfssemin er í dvala? „ Þetta er vonlaus staða bæði fyrir atvinnurekendur og launþega en hvorugur stýrir för í þeirri þróun sem við erum að bregðast við.  Þetta er eitthvað sem er ekki fjallað um í hagfræði og rekstrarbókum en mitt mat er að atvinnurekendur leiti aftur í hæfileikaríkt starfsfólk sem þeir hafa byggt upp samstarf við á undanförnum árum. Þess vegna tel ég einsýnt að þegar fyrirtækin vakna úr híðinu leiti þau aftur til þessara starfsmanna.“ 

„Nú eru svo sannarlega ekki venjulegar aðstæður“

 Einn liður í aðgerðapakkanum er að auðvelda fyrirtækjum fjárhagslega endurskipulagningu. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Hvað felst í fjárhagslegri endurskipulagningu og hvernig voru reglurnar íþyngjandi? „Í henni felst í rauninni að það er gert hlé á þjónustu venjulegra skuldbindinga fyrirtækja. Þau gera hlé á að borga af skuldum, borga fasta reikninga og standa skil á því sem annars þarf að gera í því skyni að taka til í fjárhagnum. Við getum talað um að þau frysti stöðuna, taki ljósmynd á meðan lesið sé í það hvað sé skynsamlegast að gera í framhaldinu. Þegar allt er með eðlilegum hætti þurfa að vera skorður við því að fara þessa leið því ekki viljum við að hún sé misnotuð af fólki sem annað hvort af ásetningi eða gáleysi farið illa með rekstur fyrirtækja sinna en nú eru svo sannarlega ekki venjulegar aðstæður og fjöldi fyritækja sem ekki hafa annað til saka unnið en að vera í geira sem verður fyrir fordæmalausu höggi á skömmum tíma. Þá þarf kannski að vera hægt að bregðast hratt við og leikreglur í samfélaginu verða til að torvelda viðbrögðin.“

  

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi