Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Norðanverðir Vestfirðir munu ekki fylgja landinu 4. maí

Myndir teknar með dróna.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Þrjátíu prósent virkra smita á landinu eru á norðanverðum Vestfjörðum. Tvö ný smit greindust í gær, bæði í Bolungarvík. Á norðanverðum Vestfjörðum verða ekki sömu tilslakanir á samkomubanni og annars staðar á landinu 4. maí.

Á norðanverðum Vestfjörðum eru nú 45 virk smit. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir nýju smitin ekki teljast sem bakslag.

„Þau voru bæði hjá fólki sem var í sóttkví. Það eru góðar fréttir að því leytinu til að við væntum þess þá að það komi engin smit í kjölfarið og engir fleiri þurfi að fara í sóttkví vegna þess,“ segir hann.

Tilslakanir verða hægari á norðanverðum Vestfjörðum

Slakað var á aðgerðum í Súðavík og á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri í gær og gilda þar nú sömu sóttvarnarreglur og annars staðar á landinu. Hertar aðgerðir eru enn í gildi í Bolungarvík Hnífsdal og á Ísafirði þar sem að hámarki fimm mega koma saman.

Þegar slakað verður á reglum á landsvísu 4. maí verða norðanverðir Vestfirðir í heild sinni undanskildir, að þorpunum fjórum meðtöldum. Í Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhreppi verður 20 manna samkomubann og starfsemi sem krefst mikillar nálægðar enn óheimil.

„Við erum viku eða tveimur á eftir landinu öllu þegar kemur að toppinum og því hvernig faraldurinn þróast. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að það er ekki gert ráð fyrir því að hömlum verði aflétt hér á norðanverðum Vestfjörðum 4. maí á sama hraða og annars staðar á landinu.“

Að óbreyttu segir Gylfi þó að frekari tilslakanir taki gildi 11. maí.

„Ef ekki verður bakslag, þá náum við landslínunni 11. maí.“

Yfir 400 sýni voru tekin í skimun Íslenskrar erfðagreiningar á Patreksfirði fyrir helgi. Ekkert þeirra reyndist jákvætt og eru því sunnanverðir Vestfirðir smitlausir.