Meirihluti fólks sem greindist hjá ÍE smitaði ekki aðra

28.04.2020 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Meirihluti þeirra sem greindust með COVID-19 hjá Íslenskri erfðagreiningu smitaði ekki út frá sér. Fyrirtækið greinir einungis sýni úr einkennalausu fólki. Ævar Pálmi Pálmason, hjá smitrakningateymi Almannavarna, segir að þetta styðji kenningar um að einkennalausir smiti síður en aðrir.

Innan við tíu prósent allra sem greinst hafa hér á landi greindust hjá Íslenskri erfðagreiningu. Fyrirtækið hefur einungis greint sýni úr fólki sem ekki hefur einkenni sjúkdómsins og er ekki í sóttkví, fyrir utan í Vestmannaeyjum og á Vestfjörðum, þar sem hópsmit komu upp. 

Tveir þriðju þeirra sem greindust hjá Íslenskri erfðagreiningu smituðu ekki þá sem voru útsettir fyrir smiti. Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, hjá smitrakningateymi Almannavarna. Hann segir í samtali við fréttastofu að þetta renni stoðum undir þær kenningar að einkennalausir smiti síður út frá sér en þeir sem eru með einkenni sjúkdómsins. 

Smitrakning snýst um að koma útsettum fyrir smiti í sóttkví

Verkefni rakningateymisins er nú helst fólgið í því að rekja hverja einstaklingur sem greinist hefur hitt og útsett fyrir smiti, og koma viðkomandi í sóttkví. Í upphafi var meiri áhersla á að rekja hvar viðkomandi hefði sýkst. Eftir að samkomubann var sett á sé smitrakningin oftast mun einfaldari en áður, þar sem fólk hittir nú færri en áður og útsetur þá færri fyrir smiti.

Ævar segir að smitrakning hafi einnig leitt í ljós að enginn Íslendingur hafi smitast af erlendum ferðamanni hérlendis. Þá hafi raðgreinging veirunnar hjá Íslenskri erfðagreiningu leitt í ljós að enginn fullorðinn hafi smitast af barni.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi