Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lentu eins hreyfils flugvél á Kerlingu

28.04.2020 - 09:26
Mynd: RÚV / RÚV
Lítilli eins hreyfils flugvél var lent á Kerlingu, hæsta fjalli Norðurlands í gær. Flugstjórinn segir aðstæður til lendingar á fjallinu hafa verið eins og best verður á kosið.

Fjallið rúmlega 1.500 metra hátt

Það var um miðjan dag í gær sem þeir félagar Kristján Þór Kristjánsson og Fáfnir Árnason ákváðu að fljúga upp á Kerlingu. Tindurinn sem er sá hæsti á Norðurlandi er rúmlega 1.500 metra yfir sjávarmáli. Kristján Þór Kristjánsson, flugmaður segir flugið hafa gengið vel. 

„Við fórum í loftið hérna frá Akureyrarflugvelli um hálf níu í gærkvöldi, svona með það í huga að skoða aðstæður á fjallinu til þess að lenda. En það þurfa að skapast alveg sérstakar aðstæður  þar sem snjórinn þarf að vera harður, skyggni gott, ekki snjóblinda og logn,“ segir Kristján.

Vélin góð í aðstæðum sem þessum

Kristján segir vélina, sem er af gerðinni Piper, henta fullkomlega til lendingar í aðstæðum sem þessum. Kristján segir alls ekki algengt að flugvélum sé lent á fjallinu en það hafi þó verið gert að minnsta kosti tvisvar. 

„Flugbrautin þarna er að minnsta kosti 800 metrar og þessi flugvél þarf 100 metra í lendingu, svipað í flugtaki.“

Reiknið þið með að það verði fleiri svona ferðir?

„Verðið í dag er gott  og færið svipað og í gær  þannig að það er aldrei að vita nema við förum á einhvern annan fjallstopp í dag.“

odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson