„Ég stend mig enn að því að tala við pabba“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég stend mig enn að því að tala við pabba“

28.04.2020 - 09:08

Höfundar

„Heldur þú að ég ali dætur mínar upp sem vinnukonur fyrir syni þína?“ sagði Gunnar Eyjólfsson leikari við vin sinn sem hneykslaðist á því að karlmaðurinn á heimilinu væri að ryksuga. Dóttir hans, Þorgerður Katrín er fyrsta konan sem situr í formannssæti hægri flokks á Íslandi. Hún býr að því að vera alin upp af hvetjandi foreldrum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingkona og formaður Viðreisnar er alin upp á ástríku heimili í Breiðholti af ákveðnum og hvetjandi foreldrum sem voru henni og systur hennar miklar fyrirmyndir. Katrín Arason móðir þeirra vann úti og faðir þeirra tók þátt í uppeldi og heimilisverkum til jafns við hana. Þegar vin hjónanna bar að garði árið 1975 þegar leikarinn var að ryksuga heimilið áttu sér stað orðaskipti þeirra á milli sem þingkonan gleymir aldrei. „Pabbi var ágætur á ryksugunni, ágætur í að gera eitt og annað heima. Hann var einn daginn, eigandi tvær stelpur, að ryksuga. Þá kemur góður vinur okkar sem á þrjá drengi í heimsókn.“ Vinurinn spyr strax hvað í ósköpunum húsbóndinn sé að gera og segir að hann myndi sjálfur aldrei láta grípa sig með ryksuguna. „Pabbi leggur rólega frá sér ryksuguna og segir: Kæri vinur, heldur þú að ég ali dætur mínar upp sem vinnukonur fyrir syni þína?“ Söguna hefur Þorgerður Katrín gjarnan sagt síðan, meðal annars þegar hún hefur barist fyrir jafnrétti inni á þingi og utan þess. 

Hlakkar til að geta aftur knúsað mömmu

Þorgerður Katrín segist hafa verið einræn sem barn, hélt sig út af fyrir sig og las bækur. Foreldrar hennar gerðu ekki veður út af því að hún lokaði sig stundum af með skruddunum. „Ég á samt foreldra sem eru ekki bara styðjandi heldur forvitin eins og ég. Þeim fannst stundum erfitt að ég var ekki að segja þeim leyndarmál eða hluti sem ég vildi ekki flíka. Að hluta til er ég enn þannig en mér finnst gott að vera innan um fólk, ég elska fólk.“ Og síðustu vikur hefur Þorgerði fundist erfitt að geta ekki knúsað fólkið sitt. „Einn helsti hvatinn fyrir mig núna varðandi COVID er ekki bara að samfélagið verði heilbrigt og mínir nánustu komist í gegnum það heldur ekki síður að fá að taka almennilega utan um mömmu sem er núna 93 ára. Ég elska, dýrka og dái fjölskylduna mína og mér finnst erfitt að vera fjarri fólki. Þegar ég er með því vil ég fá að knúsa það.“ Móðir Þorgerðar og nafna, Katrín, er enn söm við sig þrátt fyrir háan aldur og henni líður vel. „Hún er alltaf jafn kjaftfor,“ segir Þorgerður Katrín og hlær. „Hún hefur skoðanir á hlutunum og er mín helsta fyrirmynd, hún og pabbi, sem veittu mér alveg óendanlega góða æsku.“

Pabbi beið heima með te og smurt þegar skóla lauk

Móðir Þorgerðar Katrínar vann hjá Flugmálastjórn þegar dæturnar voru að alast upp og faðir hennar var sem fyrr segir leikari. Vinnutími hans var ekki hefðbundinn og hann gat því oft varið tíma með dætrum sínum á daginn. „Þegar ég kom labbandi heim úr Breiðholtsskóla beið mín gjarnan te og smurt og við pabbi spjölluðum um daginn og veginn,“ rifjar hún upp. „Pabbi var alltaf að segja sögur og passa upp á að ég borðaði.“

Gunnar mætti líka gjarnan í foreldraviðtölin sem gat verið erfitt fyrir dóttur hans því hann var fyrirferðamikill og masgjarn en hún vildi lítið láta fyrir sér fara. „Hann þurfti alltaf að vera að segja sögur,“ segir hún. „Þegar ég fór með pabba og mömmu í búðir þurfti ég líka að biðja pabba að tala ekki of mikið. Hann þurfti alltaf að vita hvort fólk væri frá Keflavík, hvort það væri ættað frá Suðurnesjum, hverra manna það væri. Hann kenndi mér að tala við fólk, það er svo gaman að hitta ólíka einstaklinga.“ Í stjórnmálunum hefur Þorgerður líka fengið góða æfingu í að hitta fólk og nýtur hún þess mikið. „Það heldur mér mest í stjórnmálum. Það er ólíkt fólk í samfélaginu og það er ólíkt og gott fólk í öllum flokkum,“ segir hún. 

Sér ekki eftir að hafa sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn

Þorgerður Katrín ætlaði að verða dýralæknir en fór svo í lögfræði og í stjórnmálunum hefur hún komið víða við. Hún er formaður og þingmaður Viðreisnar en var áður í Sjálfstæðisflokknum og hefur bæði gegnt embætti menntamálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hún sér ekki eftir því að hafa sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn þó hún hafi átt þar góðar stundir. „Ég átti góða tíma í Sjálfstæðisflokknum og erfiða og snúna. En það er eins og ég segi, gott fólk í öllum flokkum og ég er lánsöm að eiga góða vini, mest vinkonur, úr Sjálfstæðisflokknum sem eru mér kærar og dýrmætar. Þetta er tími sem var hluti af mínu lífi en ég er fegin í dag og stolt af því að vera formaður Viðreisnar.“

Hún viðurkennir að það sé óvanalegt að kona sé formaður í flokki sem er hægra megin við miðju enda hafi það ekki gerst fyrr. Hún segir að það sé mikilvægt í samfélaginu að konur séu alls staðar sýnilegar. „Að mínu mati þurfum við að endurspegla konur hvar sem við erum. Við þurfum að láta til okkar taka.“

„Þú ert ómöguleg og með glatað hár“

Eins og annað stjórnmálafólk fær Þorgerður reglulega póst og ábendingar frá ókunnugum og henni finnst mikilvægt að vera í samtali við samfélagið og heyra um skoðanir og reynslu fólks. En hún hefur líka fengið persónulegar athugasemdir sem eru rætnar og ómálefnalegar. Í flestum tilfellum lýtur innihald þeirra að kynferði hennar á einhvern hátt. „Þú ert ómöguleg, þú ert með glatað hár, eða, manneskja sem kann ekki að klæða sig á ekki að vera að tjá sig,“ nefnir hún sem dæmi. „Stundum er þetta bara grimm gagnrýni og það er þýðingamikið fyrir allt stjórnmálafólk að fá gagnrýni svo lengi sem hún er málefnaleg og uppbyggileg. Við eigum að temja okkur að fara meira í boltann og minna í fólkið.“

Tilfinningar eiga heima í pólitík

Þótt Þorgerður Katrín taki ómálefnalega gagnrýni um klæðaburð eða útlit ekki nærri sér er hún tilfinninganæm og segir að það sé ekkert til að skammast sín fyrir. „Það er stundum gott að gráta og ferlega heilbrigt. Mér finnst erfitt að sjá þegar fólk á erfitt og það er þungt þegar fólk hefur lent í áföllum,“ segir hún alvarleg. „Mér finnst erfitt að sjá að það er ekki hægt að hjálpa nóg og ég spyr hvort ég sé að gera nóg til að gera samfélagið og umhverfið betra. Ég get fyllst sektarkennd hvað það varðar og það leiðir til tilfinningarússíbana. Það er hluti af því sem meðal annars karlmenn þurfa að átta sig á, að það er allt í lagi að draga tilfinningar inn í pólitík. Þær eru stór hluti af samfélaginu,“ segir hún. Aðspurð hvort ástin sé henni mikilvæg svarar hún líka játandi. „Ég er tilfinningarík og ég tel mig líka ástríka konu. Ég elska fólkið mitt, ég elska að lifa og ég elska heiminn.“

Góður tími til að átta sig á hvað maður á góðan maka

Líkt og margir Íslendingar hefur Þorgerður verið í sóttkví síðustu vikur og segir hún að sú reynsla hafi að mörgu leyti verið gefandi en líka erfið. „Það gekk ljómandi vel. Þetta er góður tími til að átta sig á því hvað maður á góðan maka," segir hún og brosir. „Ég fyllist þakklæti að vera með dásamlega fjölskyldu en viðurkenni líka að það greip mig ákveðin hræðsla eins og um mömmu sem er komin á efri ár, eldhress og skoðanamikil og er manneskja sem ég elska, dýrka og dái."

Fjölskyldan hafi ákveðið að fara varlega og hlýða Víði. „Við pössuðum okkur að fara í göngutúra en það var það eina sem við gerðum," segir hún. Einangrunin reyndi mismikið á heimilisfólk og kom það Þorgerði á óvart hvað dóttir hennar, sem er með þroskahömlun og vön rútínu, var fljót að aðlagast. „Hún þarf mjög sterkt aðhald og ramma. Þetta var erfitt til að byrja með, hennar rútína brenglaðist en tæknin hjálpaði dóttur minni að halda rútínu og vera með skipulag.“

Sagðist vera næstbesti pabbinn

Þessar síðustu vikur hefur faðir Þorgerðar Katrínar verið henni ofarlega í huga og stendur hún sjálfa sig að því að tala við hann og leita til hans. Það hefur komið sér vel að RÚV og Þjóðleikhúsið hafa síðustu vikur sýnt nokkur af eftiminnilegustu stykkjunum sem sett hafa verið upp í leikhúsinu til að stytta fólki stundir í inniverunni og hafa Þorgerður og fjölskylda notið þess að fá föður hennar heim í stofu. Gunnar lék eitt aðalhlutverkið í Hart í bak sem sýnt var fimmta apríl síðastliðinn og segir Þorgerður að það hafi verið yndislegt að rifja þá sýningu upp með fjölskyldunni, „og heyra röddina hans og horfa á hann. Það var næstum því hægt að snerta hann,“ segir hún dreymin. „Mér fannst hann alltaf besti pabbinn í öllum heiminum og sagði honum það. Þá sagði hann: „Nei ég er næstbestur.“ Þegar Þorgerður spurði hver væri þá bestur svaraði faðir hennar: „Ég veit það ekki, ég hef ekki hitt hann ennþá en það hlýtur að vera til einhver betri en ég.“

Rætt var við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Segðu mér á Rás 1 og má hlýða á allt viðtalið hér.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“

Menningarefni

„Þetta eru myndir sem ég sýni engum“

Sjónvarp

Veikindi litlu systur settu verkefnið í nýtt samhengi