Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

95 prósentum flugfreyja hjá Icelandair sagt upp

28.04.2020 - 15:22
epa02747627 An SAS Airbus 330 aircraft takes off behind Iceland Airs stranded Boeing 757 aircraft named after the volcano Eyjafjallajokull parked at a remote stand at Arlanda airport north of Stockholm, Sweden, 23 May 2011. The Eyjafjallajokull aircraft is parked at Arlanda, not able to return home, since the ash cloud from the volcano Grimsvotn closed the airports on Iceland 22 May.  EPA/Johan Nilsson SWEDEN OUT
 Mynd: EPA - Scanpix Sweden
900 af 940 flugfreyjum verður sagt upp störfum hjá Icelandair. Þetta staðfestir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður Flugfreyjufélagsins, í samtali við fréttastofu. Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, sagðist ekki hafa nákvæma tölu um hversu mörgum flugmönnum yrði sagt upp störfum. „En þetta er svakalegt högg fyrir fyrirtækið“

Icelandair tilkynnti í dag að rúmlega tvö þúsund starfsmönnum yrði sagt upp störfum. Þeir sem verða eftir hjá félaginu verða annað hvort í skertu starfshlutfalli eða í fullu starfi á skertum launum. 

Líkt og önnur flugfélög hefur Icelandair verið í vandræðum enda liggur nánast allt millilandaflug niðri og algjör óvissa ríkir um hvernig framhaldið verður. Uppsagnirnar sem tilkynntar voru í dag ná til alls félagsins en hafa mest áhrif á áhafnir, viðhaldsþjónustu og starfsfólk flug-og farþegaþjónustu. 

5. maí rennur út samningur félagsins við ríkið um millilandaflug. Ríkið greiðir að hámarki hundrað milljónir króna. 

Félagið hefur náð samkomulagi við þýska fyrirtækið DB Schenker um fraktflutninga á milli Kína og Þýskalands. Alls nær samkomulagið yfir 45 ferðir á milli Sjanghæ og Munchen. Auk þess ætlar Icelandair að sjá um fraktflutninga frá Sjanghæ til Chicago.

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að koma flugfélaginu ekki til aðstoðar. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði ríkisstjórnina forðast að ræða stöðu Icelandair. Fyrirtækið hefði orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli og nú blasti við að um tvö þúsund hefði verið sagt upp störfum. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV