Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill að fyrirtæki í ferðaþjónustu fái styrki frá ríkinu

Mynd: RÚV / RÚV
Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, vill að hið opinbera styrki fyrirtæki í ferðaþjónustu, í stað þess að lána þeim. Þetta sé mikilvægt til þess að tryggja viðunandi lífskjör í framtíðinni. Hún segir að fjölmörg fyrirtæki í ferðaþjónustu fari í þrot á næstunni, verði ekkert að gert.

„Ég held að við séum að tala um samsvarandi upphæð og endar kannski í hlutabótaleiðinni, þótt hún sé mögulega hærri en það,“ sagði Kristrún Mjöll í Kastljósi í kvöld, en sjá má viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Að gera of lítið

„Upphaflega byrjuðum við á 13 milljörðum þar, en enduðum í 20 milljörðum. Þetta gæti farið í 50 milljarða. Auðvitað snýst þetta allt um tímarammann. En við gætum verið að horfa upp á tugi milljarða, 70-80 milljarða, sem þarf að setja í þetta. Og ég held að samhengið sjáist á þeim upphæðum sem við höfum séð í tengslum við brúarlánin og þess háttar. Þær upphæðir og þær lánveitingar sem búið er að leggja fram þar eru 80-100 milljarðar af fjármagni sem er búið að meta nú þegar.“

En er hægt að gera þetta án þess að vita hvernig framtíðin verður?

„Ég myndi snúa þessu á haus og spyrja: Er hægt að grípa til þeirra aðgerða, að gera of lítið, þegar þú veist einmitt ekki hvernig framtíðin verður. Við erum náttúrulega búin að sjá heila atvinnugrein byggjast mjög hratt upp á síðastliðnum tíu árum. Þetta er atvinnugreinin sem stuðlaði að því að við náðum okkur upp úr síðasta hruni. Við verðum að athuga það. Ég er alls ekki að gera lítið úr öðrum atvinnugreinum. Og ég hef sjálf sagt það og get sagt það hér að ég hef aldrei verið einhver sérstakur talsmaður ferðaþjónustunnar. Hún hentar að mörgu leyti Íslandi ekkert rosalega vel, þetta er vinnuaflsfrek grein, laun eru há og gjaldmiðillinn erfiður. En það breytir ekki því að við fórum þessa vegferð og þetta er ástæða þess að við erum með 800 milljarða gjaldeyrisvaraforða. Þetta er ástæða þess að við náðum okkur tiltölulega hratt upp úr síðustu bylgju,“ segir Kristrún. 

Vitum ekkert

„Og mér finnst svolítið aggressívt að setja okkur mögulega í þá stöðu að sjá fjölda fyrirtækja, sem í rauninni var mjög heilbrigður rekstrargrundvöllur fyrir, fara í þrot vegna þess að við erum tilbúin til þess að taka þá ákvörðun eftir 7-8 vikur í þessu ástandi.“ 

Kristún segir að hugmyndin gangi ekki út á að halda fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdum greinum á lífi mánuðum eða árum saman í því ástandi sem nú ríkir.

„En ef þú ímyndar þér hvað við erum búin að sjá mikið gerast á síðastliðnum svona átta vikum. Ég veit ekkert frekar en þú hvar við stöndum eftir átta vikur. Það sem við þó vitum er að kúfurinn er að ganga víða yfir, við erum að fara að sjá opnanir víða. Við vitum ekkert í hvaða stöðu við erum að fara að vera í í lok sumars. Og þó að ég hafi heilt yfir verið frekar svartsýn á efnahagsástandið hérna, þá veit ég það hreinlega ekki. Og mér finnst við bara skulda atvinnugreininni og okkur sjálfum að reyna að kaupa okkur tækifæri fram í tímann, vegna þess að fólk áttar sig ekki á því að það er mjög kostnaðarsamt að gera ekki neitt.“