Vegagerðin lokar vegum á hálendinu

27.04.2020 - 22:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
„Ferðamannastaðir á hálendinu eru sérstaklega viðkvæmir á þessum árstíma. Því er mjög mikilvægt að þau svæði fái frið fyrir allri umferð á meðan frost er að fara úr jörðu, jarðvegur að þorna og gróður að vakna til lífsins,“ segir í frétt á vef Umhverfisstofnunar, en Vegagerðin er byrjuð að loka vegum á hálendinu til að koma í veg fyrir skemmdir og til þess að vernda náttúruna. Akstur inn á lokað svæði er óheimill og varðar sektum, að því fram kemur í fréttinni.

„Nú er vor í lofti, snjóa leysir, frost er að fara úr jörðu og gróður vaknar til lífsins. Brothættur tími þar sem traðk getur ógnað jarðvegi og gróðri. Það á ekki síst við um gönguleiðir og vegi sem eru ekki uppbyggðir,“ segir í frétt Umhverfisstofnunar.

Djúpt far

Þar segir ennfremur að skemmdir og rask hljótist iðulega af ótímabærri umferð og akstri utan vega þegar krækt sé fyrir skafla og polla eða ekið á ótraustri snjóþekju. Einnig sé hætta á skemmdum á gróðri í og við áningarstaði og á gönguleiðum þar sem jarðvegur verður vatnsósa og gróður þolir engan átroðning. Hvert fótspor geti skilið eftir sig djúpt far og jafnvel varanlegar skemmdir.

Á vef Vegagerðarinnar eru upplýsingar um lokanir og opnun fjallvega og hvenær undanþága á akstri inn á lokuð svæði kemur til greina. 

„Það er mikilvægt að ganga, hjóla eða keyra ekki um svæði sem eru viðkvæm vegna aurbleytu. Stöndum saman vörð um náttúru Íslands!“ segir í frétt Umhverfisstofnunar.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi