Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tveir gestir á Hótel Sögu en 235 herbergi

Mynd með færslu
 Mynd: Radissons Hotels - Mynd
Tveir gestir eru á Hóteli Sögu í dag, en þar eru 235 herbergi. Ingibjörg Ólafsdóttir hótelstjóri segir starfsmenn vera í sautján stöðugildum en stöðugildin eru alla jafna hundrað. Ingibjörg segir nánast allri starfsemi hafa verið lokað, nema Mímisbar. Hann er opinn seint á kvöldin. Það er hægt að panta herbergi og starfsfólkið á Mímisbar sér um að manna gestamóttökuna. 

„Maður fyllist depurð og svolitlum doða. Þetta er ofboðslega sorglegt ástand en auðvitað er þetta ástand sem á sér stað alls staðar í heiminum,“ segir Ingibjörg. 

Ingibjörg segir að hótelgestir geti ekki pantað sér morgunverð, en mötuneytið sé opið og verktakar úr Húsi íslenskra fræða komi í mat á Hótel Sögu.  

„Það er engin arðsemi í þessu, en það skiptir máli að við getum haldið einhverjum í vinnu og getum haldið fyrirtækinu á lífi í einhvern tíma,“ segir Ingibjörg. 

Ingibjörg segir að innanlandsmarkaðurinn taki örugglega við sér í sumar. „En það er bara svo lítið að það hefur ekkert að segja í hítina,” segir Ingibjörg. Ingibjörg leggur áherslu á að það verði ekki farin sú leið að setja öll fyrirtæki sem lenda í vandræðum í þrot. „Gjaldþrotahrina er örugglega dýrari en að reyna að bjarga sem flestum í gegnum þetta ástand.“ segir Ingibjörg. 

Ingibjörg segir mikilvægt að ferðaþjónustufyrirtækum verði gert kleift að segja upp starfsfólki án þess að fyrirtækin þurfi að borga fólkinu uppsagnarfrest. „Ég á von á því að ríkið komi með eitthvað útspil í því í vikunni,“ segir Ingibjörg.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV