Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Saga Travel gjaldþrota

27.04.2020 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: Saga Travel/Facebook
Ferðaþjónustufyrirtækið Saga Travel á Akureyri hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Áætlað er að gjaldþrotið snerti u.þ.b. 30 starfsmenn og verktaka.

Saga Travel var stofnað árið 2009 og hefur síðustu ár verið umfangsmikið í skipulagningu dagsferða frá Akureyri, Mývatnssveit og Reykjavík, auk þess að skipuleggja ferðir um allt land. Systurfélög Saga Travel, eru félögin Geo Iceland og Iceland Horizon.

Í bréfi til leiðsögumanna sem störfuðu hjá Saga Travel, segir Baldvin Esra Einarsson framkvæmdastjóri félagsins, að ekki hafi tekist að fjámagna tekjuleysi næstu vikna og mánaða. Lausafjárstaðan hafi ekki verið sterk og tilraunir til að fá lánsfé og aukið hlutafé inn í félagið hafi ekki borið árangur. Ekki náðist í Baldvin Esra við gerð fréttarinnar.

Um 15 manns störfuðu hjá Saga Travel, en auk þess leiðsögumenn og fleiri verktakar. Talið er að gjaldþrotið snerti um 30 manns með beinum hætti.