Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rússum líst illa á framlag Bandaríkjanna til Grænlands

27.04.2020 - 03:07
Mynd með færslu
 Mynd: sjáskot - Írska ríkissjónvarpið
Sendiherra Rússlands í Danmörku sakar Bandaríkjamenn um að reyna að ná völdum á norðurslóðum með útspili sínu í Grænlandi. „Miðað við yfirlýsingar sendiherrans Carla Sands reiða Bandaríkin sig alfarið á átakastjórnmál í stað viðræðna og samstarfs," skrifar Vladimir Barbin, sendiherra Rússa í Danmörku í danska blaðið Politiken.

Bandaríkin greindu frá því í síðustu viku að ríkið ætli að veita Grænlendingum fjárstyrk til þess að styrkja menntun og iðnað í landinu. Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar fagnaði framlaginu, sem og danski utanríkisráðherrann Jeppe Kofod. Nokkrir þingmenn á danska þinginu lýsut hins vegar yfir andstöðu við styrkinn, mögulega af ótta við að Bandaríkin vilji herða tökin á Grænlandi. Bandaríkjaher er með herstöð á Grænlandi, og Bandaríkjaforseti viðraði þá hugmynd í fyrra að kaupa Grænland af Dönum. Það var þó slegið fljótt af borðinu.

Ekki að liðka fyrir kaupum

Bandaríski sendiherrann Sands sagði fjárframlagið ekki til þess gert að liðka fyrir kaupum á landinu. Þegar framlagið var tilkynnt greindi hún frá óróa Bandaríkjanna og fleiri þjóða vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa og Kínverja á norðurslóðum. 

Barbin segir í pistli sínum í Politiken að það séu Bandaríkjamenn sem sýni árásargirni með gjörðum sínum. (Athugið að greinin er aðeins opin áskrifendum Politiken). Með framlaginu og ummælunum reyni þeir að grafa undan áratugalöngu friðsamlegu samstarfi ríkja við norðurskautið. Þá segir hann aðgerðir Bandaríkjanna stríða gegn Ilulissat-sáttmálanum sem var undirritaður árið 2008. Þar samþykktu Rússar, Bandaríkjamenn, Kanadamenn, Norðmenn og Danir að auka samstarf á norðurslóðum. Eins var kveðið á um að ríkin leystu deilur á friðsaman hátt. 

Óvenjulegt að Rússar svari

Hennes Mouritzen, sérfræðingur í utanríkismálum hjá dönsku alþjóðastofnuninni, DIIS, segir þetta í fyrsta sinn sem Rússar svara fyrir ásakanir Bandaríkjanna um aukið hernaðarbrölt á norðurslóðum. Hingað til hafi þeir látið gagnrýni Bandaríkjanna sem vind um eyru þjóta. 

Grænlenska dagblaðið Sermitsiaq segir á vefsíðu sinni að Sands vísi gagnrýni Barbins á bug. Hún segir Bandaríkin vinna að stöðugleika og öryggi á norðurslóðum.