Opnað fyrr fyrir umsóknir á Stúdentagarðana

27.04.2020 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Félagsstofnunar stúdenta hefur ákveðið að opna fyrir móttöku nýrra umsókna um húsnæði á Stúdentagörðum frá og með 1. maí í stað 1. júní líkt og áður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. 

Ástæðurnar eru ástandið í samfélaginu vegna Covid-19 faraldursins. Gert er ráð fyrir að margir flýti námi, nýti sér sumarnám og skrái sig í nám við Háskóla Íslands í haust. „Óvissa varðandi húsnæðismál veldur því oft að þeir sem hyggja á nám eiga erfitt með gera ráðstafanir, á það sérstaklega við um nemendur af landsbyggðinni og erlendis frá. Með því að úthluta fyrr getur FS betur tryggt þessum hópi örugga búsetu,“ segir í tilkynningu frá Félagsstofnun stúdenta. 

Biðlistar á Stúdentagarða eru alla jafna langir en vegna mikillar uppbyggingar á Stúdentagörðum síðustu ár getur FS boðið þeim sem hyggja á nám í haust húsnæði fyrr en áður.

Stjórn FS hafði áður tilkynnt núverandi íbúum um tímabundnar tilslakanir á kröfum um námsárangur á yfirstandandi skólaári vegna Covid-19, sem varða rétt til áframhaldandi búsetu á Stúdentagörðum. Breytingin var gerð til þess að íbúar þurfi ekki að óttast að missa leigusamning nái þeir ekki að skila tilskyldum einingafjölda nú á vormisseri. Auk þess verður reglum um hámarksdvalartíma ekki fylgt eftir og greiðslufrestur veittur þeim sem á þurfa að halda á 25% hluta húsaleigu apríl, maí og júní vegna aðstæðnanna.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi