Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kanna hvort loðnan hafi farið til Færeyja

27.04.2020 - 07:55
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mikið af loðnu hefur fundist í færeyskum fjörðum og hafa sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar verið í sambandi við færeyska fiskifræðinga sem telja ekki ólíklegt að þetta sé loðna sem hafi áður verið við Ísland. Áætlað er að rannsaka sýni frá Færeyjum, meðal annars með tilliti til erfðafræði. Þá er fyrirhugað að áætla rek seiðanna með straumlíkönum.

Mikill loðnubrestur varð hér við land í vetur. Færeyskir fiskifræðingar hafa fundið smávaxna loðnu, 3 til 12 sentimetrar að lengd, í leiðöngrum mars og í apríl. Sumar smærri loðnurnar voru komnar að hrygningu. „Ég hef ekki séð afgerandi upplýsingar um magn en við munum fá send sýni frá þeim sem við getum borið saman við Íslensku loðnuna til dæmis með tilliti til erfðafræði,“ segir í skriflegu svari Birkis Bárðarsonar, fiskifræðings hjá Hafrannsóknastofnun. „Jafnframt munum við vera áfram í sambandi við Færeyingana til að fá frekari upplýsingar um hvað er að gerast þarna.“

Færeyskir fiskifræðingar segja loðnu þar nýmæli

Færeyingarnir segja það nýmæli að þeir verði varir við loðnu í fjörðunum og auk þess er það óvenjulegt að svo smá loðna sé orðin kynþroska og gæti það bent til þess að þarna sé hægvaxnari loðna á ferðinni. „Við höfum verið að sjá aukna hrygningu loðnunnar fyrir norðan Ísland en hefðbundin megin hrygningarslóð loðnu hefur verið fyrir sunnan og vestan land. Þá höfum við einmitt verið að velta því fyrir okkur hver verða örlög þeirra loðnuseiða sem klekjast fyrir norðan, en þau klekjast í kaldari sjó sem getur leitt til seinkunar klaks og hægari vaxtar,“ segir í svari Birkis.  

Mynd með færslu
Birkir Bárðarson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.  Mynd:

Straumar hafa hugsanlega borið hluta seiða austur 

Stöku sinnum sjáist merki um hægvaxta loðnu við Ísland, en hugsanlegt er að straumar fyrir norðan land beri að minnsta kosti hluta seiðanna austur á bóginn. Yfir Íslands-Færeyjahrygg mæti Austur-Íslandsstraumur úr norðri Norður-Atlantshafsstraumnum og gæti þar verið rekleið til suðausturs í átt að Færeyjum, að sögn Birkis. „Við höfum verið að skoða útbreiðslu loðnuseiða umhverfis ísland þar sem fyrirhugað er að áætla rek seiðanna með straumlíkönum og verður áhugavert bera það saman við það sem nú er að gerast í Færeyjum,“ segir hann. 

Ljóst er að loðnan við Ísland hefur breytt atferli sínu, til dæmis með aukinni hrygningu fyrir norðan land með hugsanlegum afleiðingum fyrir vöxt og afdrif hluta stofnsins. Að sögn Birkis gæti loðna við Færeyjar verið dæmi um slíkt, en að það þurfi að skoða betur.