Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvetja sveitarfélög til að stika út gönguleiðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Markaðsstofa Norðurlands hvetur sveitarfélög til að merkja gönguleiðir á COVID-19 óvissutímum. Þær séu gott og ódýrt veganesti fyrir ferðaþjónustuna. Átakinu er ætlað að efla innviði og vekja athygli á landshlutanum. Hnitum er safnað í gagnagrunn svo ekki þarf að styðjast eingöngu við stikur.

Markaðsstofa Norðurlands hefur sent sveitarstjórnum á Norðurlandi bréf og hvatt til samstarfs í merkingu gönguleiða í fjórðungnum. Nokkur sveitarfélög vinna nú þegar að svipuðum verkefnum en „með því að sameina kraftana undir einum hatti er hægt að auka slagkraft verkefnisins út á við og nýta í markaðssetningu,“ segir í bréfinu. 

Framhald af öðru verkefni

Björn H. Reynisson hjá Markaðsstofu Norðurlands segir verkefnið í raun sprottið af öðru verkefni sem byrjaði í fyrra, þá hafi verið byrjað að safna gönguleiðum í landsfjórðungnum saman í gagnagrunn sem væri aðgengilegur á netinu. Þessi viðbót geti fjölgað gönguleiðum í gagnagrunninum og eflt hann sem markaðstæki til ferðamanna.  

„Þegar þetta kom upp með þessa COVID-veiru fórum við að ræða hvaða verkefni sveitarfélögin gætu unnið til þess að skapa vinnu sem myndi hjálpa ferðaþjónustunni til framtíðar, og þá kom upp þessi hugmynd, að merkja og trakka gönguleiðir sem yrðu þá aðgengilegar inni í gagnagrunninum,“ segir Björn. Allir geti þá náð í hnitin af viðkomandi leið í símann sinn og þurfi ekki lengur að stóla eingöngu á stikur. 

Góð gönguleið er gott veganesti

„Nú á tímum óvissu og engra ferðalaga er mikilvægt að nýta tímann til þess að búa í haginn fyrir betri tíð. Uppbygging, merking og lagfæring gönguleiða er verkefni sem er auðvelt að ráðast í, kostar tiltölulega litla fjármuni en getur aukið mikið við vöruframboð og sýnileika viðkomandi svæðis,“ segir enn fremur í bréfinu. Vinsældir göngu- og hjólreiðaferða séu að aukast hvað hraðast í heiminum í dag. Gott framboð á merktum leiðum sé því gott veganesti til frambúðar í ferðaþjónustu.