Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gamaldags gardína getur orðið flottur gjafapoki

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Gamaldags gardína getur orðið flottur gjafapoki

27.04.2020 - 17:14

Höfundar

„Margir tengja við það að kannski mamma þeirra eða amma hafi gert nákvæmlega þetta. Að sauma til dæmis úr gardínum ný föt. Þannig að við erum að mörgu leyti að fara „back to the basics,“ - nýta það sem til er," segir Marta Sif Ólafsdóttir sem hannar vörur undir merkjum Litlu Sifjar á Ísafirði.

Vildu nýta textíl af svæðinu

„Hugmyndin var að gera einhverjar skemmtilegar vörur úr öllum þessum textíl sem er verið að henda og fötum og flíkum og gardínum og alls konar og búa til vörulínu í kringum það," segir Marta Sif. Hún fær að nýta efni og flíkur sem ekki nýtist á nytjamarkaði Vesturafls á Ísafirði og fólk færir henni líka efni.

Býr til fjölnota veisluskreytingar

Marta Sif saumar barnaföt en vildi líka með verkefninu leysa af hólmi óumhverfisvænar vörur og því fóru augu hennar að beinast að einnota skreytingum í afmælum og öðrum veislum. Marta hefur því hannað fjölnota fánalengjur úr margvíslegu efni, kórónur sem hún gerir úr þæfðum ullarpeysum sem hafa gert sitt gagn og gjafapoka úr efni sem sómir sér ef til vill ekki lengur sem gardína en er flott í gjafapoka.

„Margir eru með jólaskraut ofan í kassa sem er svo tekið upp á hverju ári. Við ættum alveg að geta gert það sama með afmæli,“ segir Marta Sif.