Aðeins tveir í einangrun í Vestmannaeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Páley Borgþórsdóttir
Aðeins tveir eru í einangrun með COVID-19 í Vestmannaeyjum og tíu eru í sóttkví. Ekkert nýtt smit hefur greinst í Vestmannaeyjum í heila viku. „Við erum komin langan veg, þetta hefur tekið á en við erum hvergi nærri því að gefast upp,“ segir lögreglustjórinn í Eyjum.

Vestmannaeyjar er eitt þeirra bæjarfélaga sem þurfti að grípa til hertra aðgerða þegar upp kom hópsýking í bænum.

Sex vikur eru síðan fyrsta smitið greindist en alls hafa 105 greinst með kórónuveiruna í Eyjum. „ Í sameiningu náðum við tökum á útbreiðslunni og það sem hafði mest um það að segja var það hversu vel fólk fór að fyrirmælum og fylgdi settum reglum,“ skrifar Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. 

Páley segir faraldurinn á hröðu undanhaldi og það séu góðar fréttir. „ Við megum engu að síður búast við því að fá áfram eitt og eitt smit því veiran er að öllum líkindum enn í samfélaginu.“ Gæta verði að fjarlægðarmörkum áfram til að koma í veg fyrir að útbreiðsla fari af stað. „Eins og dæmin hafa sýnt þá hefur einkennalaust fólk einnig greinst með veiruna.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi