Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Um 500 Róhingjar komast hvergi á land

26.04.2020 - 03:12
epa04757706 Refugees from Myanmar and Bangladesh are rescued by Aceh fisherman in Julok, East Aceh, Sumatra, Indonesia, 20 May 2015. Indonesian fishermen rescued more than 370 migrants, many from Myanmar's Rohingya minority, a rescue official said.
Fjöldi báta og skipa af öllum stærðum og gerðum og í ýmsu ástandi hefur verið gerður upptækur í indónesískri, malasískri og bangladesskri landhelgi undanfarin misseri. Öll eiga þau skip það sameiginlegt að hafa verið notuð til að flytja fólk í neyð til þessara landa.  Mynd: EPA
Um 500 Róhingjar á flótta eru um borð í tveimur togurum á Bengalflóa, og geta hvergi farið að landi. Stjórnvöld í Bangladess neita þeim um að leggjast að bryggju þar í landi, þrátt fyrir ákall mannréttindasamtaka. Al Jazeera fréttastofan hefur eftir Abdul Momen, utanríkisráðherra Bangladess, að afdrif flóttamannanna séu ekki á ábyrgð Bangladesa, þeir væru ekki einu sinni inni á hafsvæði landsins.

Momen sagði Al Jazeera að beina spurningum sínum frekar að yfirvöldum í Mjanmar, þaðan sem Róhingjarnir flýja ofsóknir. Auk þess segir Momen að Bangladesar hafi bjargað nærri 400 Róhingjum af báti fyrir nokkrum vikum. Þeir höfðu þá verið á reki um Bengalflóa í tvo mánuði eftir að hafa verið hafnað landgöngu í Malasíu. 

Flóttamönnunum á togurunum tveimur hefur einnig verið bannað að koma í land í Malasíu. Momen segir Bangladesa ekki geta tekið ábyrgðina í hvert einasta skipti. Þegar séu yfir milljón Róhingjar í landinu og ríkið geti ekki gefið meira af sér sem stendur. 

Að sögn Mannréttindavaktarinnar er talið að fólkið um borð í togurunum hafi flúið flóttamannabúðir í Bangladess til þess að komast til Malasíu. Samtökin segja öll ríki, þar á meðal Malasíu og Taíland, bera skylda til þess að aðstoða skip í vanda, samkvæmt alþjóðalögum. 

Momen segir við Al Jazeera að Bangladesar óski eftir aðstoð Sameinuðu þjóðanna og stórþjóða á borð við Bandaríkin, Bretland og Kanada um að axla hluta ábyrgðarinnar. Stjórnvöld í Bangladess séu reiðubúin að senda Róhingja þangað ef ríkin eru tilbúin að taka á móti þeim. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV