Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stingur upp á samfélagssáttmála eftir fjórða maí

26.04.2020 - 15:00
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Það væri gott ef samfélagið kæmi sér saman um sáttmála til þess að forða því að bakslag komi í kórónuveirufaraldurinn hér á landi. Það þurfa allir að leggjast á eitt svo lífið geti farið í eðlilegra horf. Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Við erum búin að hugsa mikið um að það styttist í fyrstu afléttingarnar á þessum aðgerðum sem hafa verið mjög íþyngjandi fyrir mjög marga. Við þurfum að hugsa hvernig við viljum sjá framhaldið og við höfum velt fyrir okkur einhverju sem við getum kallað samfélagslegan sáttmála. Það er mikilvægt að horfa til þess hvað þarf að gera í framhaldinu svo við missum þetta ekki frá okkur og fáum bakslag í það sem við höfum gert,“ sagði Víðir.

Það myndi felast í því að þjóðin tæki sig saman um að sinna handþvotti vel, sótthreinsa og spritta hendurnar og sameiginlega snertifleti. Þá væri það sameiginlegt verkefni að vernda viðkvæma hópa, gefa fólki sem vill kost á tveggja metra fjarlægð og vera heima ef við fáum einkenni. Einnig sé mikilvægt sé að miðla upplýsingum vel og hafa allt uppi á borðum.

„Nota fréttir frá traustu fréttamiðlunum sem eru ritstýrðir og sýna okkur rétta mynd af hlutunum, nota það í umræðunni og ekki eitthvað annað,“ sagði Víðir. Þá þurfi að sýna þeim skilning sem misstíga sig.

„Þetta eru hugmyndir að samfélagslegum sáttmála sem ég held að sé mikilvægur þegar við förum að aflétta þessu smám saman og koma lífinu okkar í eðlilegra horf. Það hefur líka áhrif hvað önnur lönd ætla að gera og þetta er sameiginlegt verkefni allra samfélaga og alls mannkyns. Við erum öll í þessu saman og þurfum að passa okkur á því í þessari vinnu að skilja engan út undan,“ sagði Víðir.