Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skoða að skipta dalnum í minni svæði fyrir þjóðhátíð

26.04.2020 - 18:55
Mynd: RÚV / RÚV
Formaður ÍBV segist ekki vilja bera ábyrgð á því að velja þann helming Vestmannaeyinga sem má fara á þjóðhátíð. Leitað er allra leiða til að halda Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár. Til skoðunar er að skipta Herjólfsdal upp í minni svæði til að hægt sé að virða fjöldatakmarkanir.

Sjö sinnum fleiri en hámark sóttvarnalæknis

Sóttvarnalæknir hefur lagt til að samkomur verði takmarkaðar við tvö þúsund manns að hámarki, að minnsta kosti út ágúst. Lögregla áætlar að allt að sjö sinnum fleiri komi saman á þjóðhátíð eða um og yfir 15 þúsund manns.

Þrátt fyrir það er stefnt að því að halda Þjóðhátíð í samráði við almannavarnir. „Hvort það verða fjöldatakmarkanir eða svæðinu skipt upp eða eitthvað slíkt. Það er allt upp á borðinu í því. Við miðum alla okkar vinnu við það að halda hana með óbreyttum hætti. En munum gera breytingar ef til þess kemur,“ segir Hörður Orri Grettisson framkvæmdastjóri ÍBV og formaður þjóðhátíðarnefndar.

Vill ekki taka þátt í að velja Eyjamenn inn í dalinn

„2000 manna takmark yrði mjög erfitt. Það er töluvert umstang að halda þetta og kostnaður sem við verðum fyrir þannig að við verðum að hafa eitthvað út úr því,“ segir Þór Vilhjálmsson, formaður ÍBV.

Þá vilji meirihluti Vestmannaeyinga taka þátt í hátíðinni. „Í þessum bæ erum við 4200. Hvernig eigum við að velja 2000 bæjarbúa inn í dalinn? Ég myndi ekki vilja taka þátt í því,“ segir Þór jafnframt.

Mikið er undir fyrir íþróttafélagið ÍBV sem fær 60-70% tekna sinna af Þjóðhátíð. Stefnt er að því að halda tvö stór íþróttamót í Eyjum í júní. Eftir 4. maí verða engar fjöldatakmarkanir á íþróttakeppnum barna á leik- og grunnskólaaldri en þær þurfa að fara fram án áhorfenda. „Foreldrarnir eru verkefni sem við þurfum að leysa en við stefnum að því að halda mótin,“ segir Hörður Orri.

„Þrátt fyrir böl og alheimsstríð, þá verður haldin þjóðhátíð“

Er hægt að tryggja tveggja metra regluna í brekkunni á þjóðhátíð? „Já, já það er vel hægt en það fer eftir því hvað það eru margir í henni.“ Ekki sé búið að áætla fjölda í brekkuna ef tryggja þarf tveggja metra fjarlægð milli hópa.

Í 145 ára sögu Þjóðhátíðar hefur hún einu sinni verið blásin af. Í fyrri heimsstyrjöldinni. „Í seinna stríðinu þá var þjóðhátíð haldin. Þá sögðu menn; Þrátt fyrir böl og alheimsstríð þá verður haldin þjóðhátíð.“

Á það við núna? „Við skulum vona það,“ segir Þór.