Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Rómverjar mögulega þeir fyrstu til að endurvinna

26.04.2020 - 16:45
epa08024720 Archaeologists work at the Central Baths, which opens to the public along with the great discoveries in the Regio V in the Archaeological Park of Pompeii, Italy, 25 November 2019.  EPA-EFE/CESARE ABBATE
 Mynd: EPA
Fornminjar sem fundist hafa við ítölsku borgina Pompeii benda til þess að Rómverjar til forna hafi flokkað rusl sitt og endurunnið úrgang.

Ítalska borgin Pompeii hefur reynst fornleifafræðingum gjöful uppspretta rannsókna. Borgin grófst undir þykkt öskulag þegar eldfjallið Vesúvíus gaus árið 79. Fornleifauppgröftur í borginni hófst á átjándu öld og borgin furðu vel varðveitt undir 4-6 metra djúpu öskulaginu. 

Rústir borgarinnar eru nú opnar almenningi sem eins konar safn eða minnisvarði um liðna tíð. Þar má ganga um götur hlaðnar á tímum Rómarveldis og skoða hýbíli þeirra sem þar bjuggu. 

Haugar sem fundust við borgarmörk Pompeii nýlega þykja renna stoðum undir það að Rómverjar hafi mögulega verið þeir fyrstu í mannkynssögunni til að endurvinna. 

Fornleifafræðingar telja að Rómverjar hafi flokkað rusl sitt, sem er frágangur sem mörgum nútímamanninum þykir meira að segja nokkuð nýmóðins. Haugar sem fundust við borgarmörk Pompeii voru í fyrstu taldir hafa myndast þegar jarðskjálfti reið yfir svæðið 17 árum áður en Vesúvíus gaus. Nú er hins vegar talið líklegra að hrúgurnar séu vel flokkað rusl og annar úrgangur frá borgarbúum sem oft var nýttur í landfyllingar og endurnýttur með ýmsum hætti. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV