Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólöglegar hárgreiðslustofur upprættar

26.04.2020 - 07:56
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þýska lögreglan stöðvaði í gær starfsemi tveggja ólöglegra hárgreiðslustofa sem búið var að koma fyrir í bæjunum Elsenfeld og Mömlingen í nágrenni Frankfurtar. Líkt og hér á landi var hárgreiðslustofum lokað í Þýskalandi vegna kórónuveirufaraldursins.

Óþolinmæði þeirra sem biðu eftir að komast að hjá hárskerunum gæti reynst nokkuð dýrkeypt. Samkvæmt þýskum reglum geta þeir sem yfirgáfu heimili sín án þess að þurfa þess átt von á 150 evra sekt, jafnvirði um 24 þúsund króna. 

AFP fréttastofan hefur eftir lögreglu að hárgreiðslustofurnar hafi verið útbúnar í kjöllurum heimahúsa. Einn viðskiptavinur var á hvorri stofu, og biðu tveir eftir klippingu í Elsenfeld og einn í Mömlingen. Hárgreiðslustofur og önnur þjónusta sem ekki er flokkuð sem nauðsynleg verður opnuð í skrefum frá og með 4. maí í Þýskalandi, líkt og hér á landi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV